Verri en Vítisenglar

Greinar

Til þess eru Vítisenglar að varast þá. Það getum við lært af mistökum löggæzlu annars staðar á Norðurlöndum. Andvaraleysi stjórnkerfisins á fyrri árum hefur gert vélhjólagengjum kleift að verða ríki í ríkinu. Þarlend yfirvöld sjá eftir linkind sinni og vara okkur við að lenda í sömu ógæfu.

Ísland er eyja með góðri aðstöðu til að hafa hemil á innflutningi hættulegs fólks og hættulegs varnings. Rétt er að nota þessa aðstöðu til að vísa frá landinu fólki, sem tengist þrautreyndum glæpasamtökum á borð við Vítisengla, og hafa strangt eftirlit með aðdáendum þeirra innanlands.

Vítisenglar eru sams konar fyrirbæri og mafían. Þau leggja til atlögu við ríkisvaldið með því að verða ríki í ríkinu. Í undirheimum þeirra ríkja lög og reglur, sem meira eða minna stangast á við lög og reglur þjóðskipulagsins og ógna öryggi skjólstæðinga þess, hinna almennu borgara landsins.

Á jaðri undirheimanna eru fíklar, sem fjármagna neyzlu sína með innbrotum, ránum, ofbeldi og aðstoð við dreifingu eiturefna og síðast en ekki sízt með því að þegja um vitneskju sína. Þetta jaðarfólk er hræddara við handrukkara og ofbeldismenn undirheimanna en við verði laga og réttar.

Þannig myndast verndarhjúpur utan um gengin, sem grafa undan lögum og rétti. Hér á landi hefur gengið illa að rjúfa þennan hjúp, þótt flestir glæpir, sem komast upp, tengist neyzlu vímugjafa. Lögreglunni hefur gengið illa að rekja sig upp eftir söluþráðum til kóngulóa fíkniefnamarkaðarins.

Hingað til hafa hér á landi einkum verið klófestir milligöngumenn og smásalar, en fáir heildsalar, nema þá bjánar, sem ekki kunnu að dyljast, notuðu til dæmis stéttartákn á borð við BMW-bíla. Lögreglan hefur náð of litlum árangri í að negla höfuðpaura undirheimanna.

Norrænir vítisenglar eru harðari í horn að taka en þeir, sem hingað til hafa verið gripnir hér. En þeir eru sömu bjánarnir, bera til dæmis tákn, sem auðvelda gagnaðgerðir. Auðvelt er að finna þá og snúa þeim frá, sem hafa áður verið myndaðir með einkennistáknum glæpagengja í bak og fyrir.

Aðgerðum gegn Vítisenglum ber að halda áfram af krafti. En þeir standa ekki efstir á glæpahaugnum. Lögreglan þarf að finna leiðir til að rekja sig upp eftir markaðsþráðum fíkniefnaheimsins og finna þá, sem eru enn verri og dyljast í einkennisbúningi jakka og bindis góðborgarans.

Mikilvægast er í fyrstu að fá jaðarmenn til að segja frá. Til þess þarf að vera hægt að tryggja öryggi þeirra og aðstandenda þeirra fyrir refsingum undirheimanna.

Jónas Kristjánsson

DV