Eina vikuna hækkar hlutdeild sjúklinga í komugjöldum; aðra vikuna hækkar hlutdeildin í lyfjaverði; þriðju vikuna hækka prófgjöld Háskólans; fjórðu vikuna túlkar ríkisstjórnin dómsúrskurð á þann hátt, að dráttarvextir séu örorkubætur; fimmtu vikuna er sérfræðiþjónusta lækna aftengd kerfinu.
Þetta er stefna þúsund sára dauðans. Jafnt og þétt er höggvið á velferðarkerfi, sem þjóðin kom sér upp, þegar hún var fátæk og taldi eðlilegt, að heilsa, menntun og öryggi væri ókeypis fyrir alla. Nú er þjóðin hins vegar orðin rík og nízk og telur sig ekki hafa efni á þessu gamla kerfi.
Meintur fjárskortur er raunveruleg ástæða flestra áverkanna, sem velferðarkerfið hefur sætt á undanförnum árum. Ríkið þarf að ná endum saman og leysir málið með því að auka beinan og óbeinan hlut fólks í kostnaði við opinbera þjónustu. Hver stunga fyrir sig er óskipulögð redding.
Rök eru til fyrir niðurskurði velferðar. Talið er, að fólk telji sig síður þurfa þjónustu, til dæmis tilvísanir á lyf, ef það veit, hvað hún kostar og þarf að borga hluta af kostnaðinum. Sagt er, að þetta spari þjóðfélaginu ekki bara hluta sjúklingsins, heldur lækki það heildarveltu lyfja.
En það eru líka til rök gegn niðurskurðinum. Talið er, að fátækt fólk neiti sér og sínum um opinbera þjónustu vegna hlutdeildar sinnar í kostnaði. Sagt er, að opinber þjónusta verði smám saman að forréttindum þeirra, sem hafa efni á að leggja fé á móti þeim peningum, sem ríkið tímir að greiða.
Upplýsingar og rökstuddar spár vantar um þessi ferli. Ekki er vitað, á hvaða stigi kostnaðarhlutdeildar fólk hættir að afla sér óþarfrar þjónustu og á hvaða stigi það hættir að afla sér brýnnar þjónustu. Ekki er vitað til, að stefna þúsund sára dauðans byggist á neinni meðvitund um þetta.
Eðlilegt er, að pólitísku öflin í landinu láti skoða skurðpunkta ferlanna, sem hér hefur verið lýst, svo að þau geti, hvert á sínum forsendum, tekið afstöðu til þess, hvenær hámarksárangri er náð í sparnaði óþarfrar þjónustu og hvenær farið er að reka fátæklingana úr velferðarkerfinu.
Í andvaraleysinu magnast stéttaskiptingin. Hluti þjóðarinnar getur ekki notað sér opinbera þjónustu á borð við heilsugæzlu og framhaldsmenntun, af því að það hefur ekki ráð á að leggja fé á móti. Smám saman snýst velferðarkerfið í andstæðu sína og verður að styrkjakerfi fyrir vel stæða.
Með stefnu þúsund sára dauða velferðarkerfisins breytumst við í stéttskipta og sundraða þjóð með nýrri stéttabaráttu.
Jónas Kristjánsson
DV