Skálkaskjólið

Greinar

Guði sé lof fyrir okkar Lúterskirkju. Hún er róleg og frjálslynd, leggur meira upp úr manngæzku og góðverkum Nýja-Testamentisins en mannvonzku og hryðjuverkum Gamla-Testamentisins. Víða annars staðar leggja trúfélög lóð sitt á vogarskál illsku og ofbeldis, haturs og hefnigirni.

Sumar erlendar mótmælendakirkjur eru síður en svo til fyrirmyndar. Nærtækast er að minnast klerksins Ian Paisley, sem hefur lagt nótt við dag að koma illu af stað á Norður-Írlandi. Víða í Bandaríkjunum hafa söfnuðir af meiði mótmælenda orðið ofsafengnir og róttækt hægri sinnaðir.

Sama er uppi á teningnum í öðrum trúarbrögðum. Ísrael er orðið ríki ofsatrúar og hryðjuverka, þar sem heilar kynslóðir ungra manna eru settir til misþyrminga og manndrápa. Sumir breytast í sturlaða ofbeldismenn, sem hér á landi væru settir á Sogn til að hlífa samfélaginu.

Einna lengst á þessu sviði ganga sumir erkiklerkar og ofsatrúarmenn Íslams. Þar er frægastur Osama bin Laden, sem lætur heilaþvo þúsundir ungra manna til að fremja sjálfsmorð með ofbeldisverkum úti um víða veröld. Mannvonzkan spyr ekki um tegundir trúarbragða. En hún sogast greinilega að þeim.

Skýringin er ljós. Skálkur, sem hefur illt í hyggju, völd eða gróða, finnur sér skjól í trúarsöfnuði og klæðist þjóðfánanum. Þannig eru stjórnmál í Bandaríkjunum orðin keppni í trúarlegri hræsni og þjóðernisrembingi. Íslenzkir pólitíkusar eru hrein fermingarbörn í þeim samanburði.

Verst er, þegar slíkir menn fara að trúa hræsni sinni og verja gerðir sínar með því að segja guð hafa talað við sig og sagt sér fyrir verkum. Þannig hefur grimmdarguð Gamla-Testamentisins talað við George W. Bush og sagt honum að fara í krossferð gegn Íslam til að tryggja sér endurkjör.

Til samanburðar getum við ekki ímyndað okkur, að heilbrigðisráðherra hafi fengið bein fyrirmæli frá guði um að svíkja samning við öryrkja, taka sérfræðiþjónustu við fátæklinga úr sambandi, lama ýmsar deildir Landspítalans og hækka ýmis sjúklingagjöld. Hann felur sig ekki bak við guð.

Stundum verðum við vör við anga bandarísks trúarrugls í sértrúarsöfnuðum hér á landi. Á kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega sést stuðningur við ofbeldi, hryðjuverk og önnur fólskuverk Ísraela gegn Palestínumönnum, að því er virðist á þeim forsendum, að Gamla-Testamentið boði illvirkin.

Vandi trúarbragðanna er, að stofnanir, sem almennt eru taldar góðar og fagrar, soga til sín þá, sem vilja leita skjóls til að fá útrás fyrir fólsku, græðgi eða valdafíkn.

Jónas Kristjánsson

DV