Ofreist hönnun

Greinar

Þegar verðtrygging Ólafslaga kom til sögunnar fyrir aldarfjórðungi, gerðu fáir sér grein fyrir, að hún mundi koma Sambandi íslenzkra samvinnufélaga fyrir kattarnef. Æ síðan hafa lög Ólafs Jóhannessonar framsóknarmanns verið skólabókardæmi um, að erfitt er að hanna þróun.

Nú höfum við annað dæmi um stórfellda skekkju í hönnun þróunar. Einkavinavæðing stjórnvalda byggðist á, að fjölskyldurnar fjórtán eða kolkrabbinn svokallaði hefði einn efni á að kaupa, þegar bankar og aðrar stóreignir yrðu seldar hæstbjóðandi. Annars staðar væri ekki til fé.

Þessi hönnun þróunar bilaði af ýmsum ástæðum og einkum vegna innflutnings á Bretagulli og Rússagulli. Ríkisbankarnir komust í hendur aðila utan kolkrabbans, svo og Eimskip, Burðarás og hugsanlega Skeljungur. Allt í einu er kolkrabbinn ekki lengur þungamiðja valds á Íslandi.

Miklar eigur eru enn í höndum fjölskyldnanna, sem sagðar voru mynda kolkrabbann á velmektardögum hans. En þetta eru sundurlausar eignir, sem ekki mynda samþjappaða valdastöðu, ef frá eru talin örfá stórfyrirtæki á borð við Íslandsbanka og Sjóvá-Almennar, svo og ýmis hversdagsfyrirtæki.

Sárastur var valdamissirinn, þegar út um þúfur fór tilraun Morgunblaðsins til að kaupa þrotabú DV og tilraunir þess til að koma upp gildu sjónvarsfyrirtæki, sem mundi kaupa væntanlegt þrotabú Norðurljósa. Bretagullið hataða keypti bæði fyrirtækin og yfirtók skuldir Norðurljósa.

DV hætti að láta prenta hjá Morgunblaðinu. Þannig ruglaðist hrikalegt fjármögnunardæmi nýbyggingar og risaprentvélar á frægu sprungusvæði við Rauðavatn. Hættulegur hallarekstur blasir því við risaeðlu kolkrabbans, sem fór á sama tíma endanlega halloka fyrir Fréttablaðinu í lestrarmælingum.

Samanlagt hefur innflutningur fjármagns umturnað hefðbundnu valdakerfi stjórnmálanna, sem byggðist á samfléttuðu afli ýmissa stærstu fyrirtækja landsins. Þetta hefur lagzt þungt á marga og einkum þá, sem stóðu pólitísku vaktina, þegar veldissól kolkrabbans ósigrandi hneig óvænt til viðar.

Andlegt áfall vaktstjóra þjóðfélagsins af völdum hinnar ófyrirséðu þróunar hefur einkennt þjóðfélagið í auknum mæli á síðustu mánuðum og vikum. Það hefur farið hamförum í áramótagreinum og öðrum virðulegum tækifærum til að líta yfir farinn veg og horfa inn í ótrygga framtíð þessa árs.

Afleiðingar Ólafslaga fyrir aldarfjórðungi og afleiðingar einkavæðingar síðustu missera sýna, að oft rennur pólitískt hannað ferli aðrar hrossagötur en því er ætlað. Mannkynssögunni hættir til að hlaupa út undan sér, þótt pólitískir snillingar reyni að girða fyrir undankomu hennar.

Engum þarf að koma á óvart, að svona fari fyrir ofrisi í hönnun þróunar. Hins vegar er minnisstætt að fylgjast með, hversu hratt sagan ryður pólitískri hönnun úr vegi.

Jónas Kristjánsson

DV