Sóðalegt óskabarn

Greinar

Þótt verktakinn Impregilio við Kárahnjúka hafi slæmt orð á sér í þriðja heiminum, eru syndir hans smávægilegar í samanburði við langt syndaregistur eiganda fyrirhugaðrar álbræðslu á Reyðarfirði. DV hefur birt nokkra kafla úr hrikalegri framgöngu Alcoa gegn umhverfi og heilsu fólks.

Syndir Impregilio felast einkum í mútum til að ná verkefnum í þriðja heiminum og þrælahaldi starfsmanna á þeim slóðum. Við höfum fylgst með anga af miður fagurri starfsmannastefnu fyrirtækisins við Kárahnjúka og auðsveipri fylgisspekt íslenzka vinnueftirlitsins og viðkomandi ráðherra við hana.

Alcoa hefur hins vegar haft forustu í umhverfismengun, til dæmis í Texas, þar sem fyrirtækið hefur hvílt í faðmi Bush-forsetaættarinnar. Þar á það álver, sem spýr 100.000 tonnum á ári af eitri út í andrúmsloftið, það er að segja 5 kílóum á hvern íbúa ríkisins. Þetta hefur leitt til milljarðasekta.

Álvinnsla Alcoa við Dallas spýr 20.000 tonnum af eitri yfir höfuðborgina og nágrenni hennar. Þetta er um 10% af allri mengun á svæðinu. Með góðum samböndum við Bush hefur það fengið sama frest til að minnka þessa mengun um helming og aðrar vinnslur fá til að minnka sína mengun um þrjá fjórðu.

Alcoa hefur gert St. Lawrence fljót að holræsi og gert ókleift að veiða þar fisk. Sama er að segja um Ohio-fljót og fljót í Louisiana. Alls hafa bandarísk stjórnvöld höfðað tæplega 50 mál gegn Alcoa vegna lögbrota. Málið út af Ohio-fljóti leiddi eitt sér til 8,8 milljón dala sektargreiðslu.

Rannsókn hefur leitt í ljós, að starfsmenn Alcoa í Ástralíu og í Quebec í Kanada hafa beðið heilsutjón af skorti á aðgerðum fyrirtækisins til að stemma stigu við rykmengun í álverum. Allt þetta, sem hér hefur verið rakið, eru syndir fyrirtækisins í ríku löndunum, þar sem eftirlit er mikið.

Í þriðja heiminum er ástandið verra, en minna vitað um það. Frestað hefur verið álveri, sem Alcoa átti að fá að reisa í Amazon fljóti í Brasilíu, þar sem ein stífla fyrirtækisins hefur þegar leitt til brottflutnings 6000 manna, sem misstu hús sín og veiðilendur og fengu 20 krónur í skaðabætur hver.

Þótt Alcoa hafi á allra síðustu árum hafið ímyndarherferð til að breyta ömurlegri stöðu í almenningsálitinu, er ljóst, að fyrirtækið hefur hvarvetna reynt að gernýta grá svæði í reglum og beinlínis brotið lög til að komast undan sómasamlegu hreinlæti í tengslum við verksmiðjur sínar.

Óvíst er hvort Reyðfirðingar fari betur út úr samskiptum sínum við Alcoa en íbúar Dallas í Texas. Reynslan segir þó, að þeim beri að vera á varðbergi gagnvart óskabarni sínu.

Jónas Kristjánsson

DV