Vox

Veitingar

****
Matarmusteri á kvöldin

Maturinn er frábær í fásinninu á kvöldin á Vox, nýjum matsal Nordica hótels. Verðlaunakokkar hafa skipað staðnum í eitt af allra efstu sætum matargerðarmustera landsins, studdir látlausri þjónustu úrvals fagmanna, sem vita allt um mat og vín staðarins.

Minna er varið í ofurvinsælt 2100 króna hlaðborð í hádeginu, þar sem bragðgæði víkja fyrir skreytilist. Í biðröðum hanga þar unglingar úr viðskiptalífinu og ráfa um með diska sína. Hrár fiskur með hrísgrjónum á japanska vísu er þar skástur og sætir eftirréttir fegurstir.

Matreiðslan á kvöldin er hátimbruð og nýklassísk. Nákvæm kryddnotkun gleður bragðlauka og flókin uppsetning gleður augu, án þess að fórnað sé eðlisbragði hráefna. Steiktur kálfavöðvi í salvíu og spínati komst í upphæðir listar og lystar. Ofnbakaður þorskur í parmaskinku var toppur tilverunnar.

Langskóluð kunnátta var að baki hægeldaðs kjúklingalæris í kryddmauki með kolsýrðri og vel rjómaðri kartöflustöppu, svo og þéttum rjómaostabúðingi með rabarbarabitum, rabarbara-ísfrauði og þunnri rabarbarasósu. Geitaostur og gorgonzola gráðostur voru nákvæmlega hæfilega gamlir

Bragðsterk blómkálsfroða var einfaldur og skemmtilegur forréttur. Flóknari og fallegri voru hreindýraþynnur með andalifrarþynnum, rauðrófum, heslihnetum og lerkisveppum. Útreiknanlegri en engu lakari voru villigæsabringur með blóðbergskrydduðum rjóma og bláberjasósu.

Vínlistinn á Vox er ákaflega vel valinn og virðulegur. Hann telur yfir 500 frægar tegundir, ótrúlega hóflega verðlagðar með tilliti til gæða. Í miðjum matsal er voldugt glerbúr, þar sem flöskurnar eru geymdar við jafnt hitastig.

Íshúsið hæfir ekki listaverkum eldhússins. Norræn naumhyggja hefur leikið lausum hala í innréttingum. Gengið er til hægri úr víðri og nakinni hótelmóttöku inn langan gang, þar sem nokkrir veitingakrókar og háir gluggar eru til hægri, en burðarsúlur, fatahengi og eldhússkenkur til vinstri.

Ég skildi ekki, hvers vegna veitingahús voru kölluð Rex og Metz og enn síður skil ég, hvers vegna matargerðarmusteri fær hallærislegt Vox í skírnargjöf. Það hlýtur að vera uppfinning ímyndarstofu, sem er úti að aka í þessum bransa og ætti frekar að finna nöfn á blandaða kóra.

Hér kostar þríréttað með kaffi án víns um 7000 krónur á kvöldin. Fimm rétta matseðill árstíðarinnar kostar 7500 krónur án víns og 11500 krónur með sérvöldu vínglasi með hverjum rétti. Allt er þetta verð við hæfi matargerðarmusteris.

Jónas Kristjánsson

DV