Múrinn víttur

Greinar

Alþjóða rauði krossinn vék á miðvikudaginn frá meginreglunni um að skipta sér ekki af stjórnmálum. Þá gagnrýndi hann Ísrael harðlega fyrir aðskilnaðarmúrinn mikla sem verið er að reisa í Palestínu og nær í mörgum tilvikum langt inn í landið til að ná til ólöglegra byggða ísraelskra landnema.

Rauði krossinn segir, að ólöglegt sé að reisa slíkan múr á landi Palestínu. Hann sundri byggðum Palestínumanna og loki þá frá vatnsbólum sínum og ökrum, skólum og heilsugæzlu. Bygging hans fari langt út fyrir mörkin, sem hernámsríki séu leyfð samkvæmt alþjóðalögum um meðferð hernumins fólks.

Dæmi eru um, að bændur, sem áður fóru yfir veginn til að sinna ökrum sínum, þurfi nú að fara marga tugi kílómetra. Þetta tekur lifibrauðið af þeim. Það hefur einmitt verið stefna Ísraels að kúga Palestínumenn til hlýðni með því að eyðileggja innviði efnahagslífs og stjórnsýslu Palestínu.

Ísrael tekur vatnið úr Jórdan til sinna þarfa og skilur lítið eftir handa Palestínu. Ísrael notar líka mestallt vatn úr borholum í Palestínu og skilur lítið eftir handa heimamönnum. Ísraelsher rústar fyrirtæki og opinberar stofnanir og eyðir meira að segja sjúkraskrám og skólaskrám.

Ofbeldisfull framganga Ísraels í Palestínu, þar á meðal bygging múrsins mikla, stríðir gegn mikilvægustu reglum alþjóðalaga um meðhöndlun fólks á hernumdum svæðum. Þær mæla svo fyrir, að stuðlað sé að efnahagslegum innviðum þjóðfélagsins og velferð íbúanna og opinberri þjónustu.

Í stórum dráttum er hernám Ísraels á Palestínu svipað hernámi nazista í Austur-Evrópu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ísraelskar útgáfur af SS-sveitum nazista fara um Palestínu til að brjóta og brenna mannvirki og drepa fólk. Herskyldufólki í Ísrael er breytt í skrímsli.

Allir gerast glæpirnir í skjóli Bandaríkjanna, sem hafa áratugum saman haldið Ísrael fjárhagslega og hernaðarlega á floti. Alvarlegast er, að Bandaríkin hafa beinlínis stuðlað að eignarhaldi Ísraels á kjarnorkuvopnum, sem magna öryggisleysi fólks á afar viðkvæmu svæði heimsmálanna.

Með valdatöku George W. Bush í Bandaríkjunum hefur stefna velvildar gagnvart Ísrael magnazt í eindreginn stuðning, sem hefur slæm áhrif á Ísraela, eykur hryðjuverk á vegum Ísraelshers og er hornsteinn múrsins mikla. Þetta er eitt alvarlegra dæma um, að Bandaríkin skaða öryggi heimsins.

Lengi var það nefnt gyðingahatur, ef menn leyfðu sér að gagnrýna Ísraelsstjórn. Með breyttum tímum og auknu ofbeldi Ísraels verður erfitt að saka Rauða krossinn um slíkt.

Jónas Kristjánsson

DV