Siðleysingjar deila

Greinar

Vörzlumaður annarra manna fjár lánar ekki sjálfum sér og syni sínum 95 milljónir króna úr lífeyrissjóði. Slíkt er ekki á gráa svæðinu, heldur langt úti af kortinu. Enginn sjóðsstjóri getur haft vald til slíks athæfis eða reiknað með að sleppa við kæru, þegar komizt hefur í hámæli.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar á þessa dagana í deilu við fyrrverandi formann sjóðsins um sekt og sakleysi. Athyglisvert er, að sá er fyrrverandi formaður eins stærsta stéttarfélagsins og sat í sjóðnum með fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins.

Það sem helzt verður lesið úr deilunni er, að sjálfsögð siðsemi í meðferð fjármuna virðist vera lokuð bók fyrir ýmsum þeim aðilum, sem komast í aðstöðu til að fara með annarra manna fé. Við vissum raunar úr öðru máli, að stjóri vinnuveitenda gat verið frekastur manna til fjárins.

Samkvæmt skriflegri yfirlýsingu verkalýðsleiðtogans hafði sjóðsstjórinn lengi haft frítt spil til lánveitinga innan ákveðins ramma. Stjórnir fyrirtækja og stofnana hafa enga heimild til að afsala sér völdum á slíkan hátt. Ef það væri hægt, þyrfti enga stjórn, bara löggiltan endurskoðanda.

Þáverandi sjóðsstjóri túlkar þetta markvissa andvaraleysi þáverandi sjóðsstjórnar sem opna heimild til að lána sjálfum sér og syni sínum 95 milljónir króna. Rétt túlkun er hins vegar sú, að stjórnin hafi reynzt vera jafn óhæf og sjóðsstjórinn. Hvorugur aðilinn eigi að höndla með peninga.

Þáverandi sjóðsstjóri heldur fram, að hann hafi verið svo klár í starfi, að sjóðurinn hafi grætt meira á öðrum ákvörðunum hans en hann tapaði á lánum til hans sjálfs og sonarins. Hann virðist halda, að hann hafi unnið sér inn kvóta til ósæmilegra ákvarðana. Hver er formúla kvótans?

Deiluaðilar áttu að varðveita lífeyri lægst settu stétta þjóðfélagsins, þeirra sem mest þurfa á lífeyri að halda að loknu starfi. Sjóðstjórnin átti að gæta lítilmagnans og taka fram fyrir hendur sjóðsstjórans, í allra síðasta lagi þegar hann vildi lána lífeyri í skýjaborgir sínar og sonarins.

Núverandi sjóðsstjóri segir, að eigendur lífeyrisins skaðist ekki. Það er rangt. Ekki verður tekin sérstök ákvörðun um að skerða lífeyrinn vegna þessa máls, en eigi að síður er ljóst, að til langs tíma skerðist eign þeirra, sem hafa tapað tugum milljóna á ósæmilegum lánveitingum sjóðsins.

Mál þetta minnir á, að víðar í lífeyrissjóðum eru verðmæti geymd í höndum félagsmálaberserkja, sem kunna ekki með fé að fara, ráða sér óhæfa sjóðsstjóra og afsala sér eftirliti.

Jónas Kristjánsson

DV