Vernd fyrir víkingum

Greinar

Myndirnar af íslenzku víkingasveitinni í sjónvarpinu vekur ýmsar spurningar um, hvaða fólk þetta sé og hver stjórni því eftir hvaða reglum. Það vekur blendnar tilfinningar að vita af auknum fjölda vopnaðs fólks á almannafæri á Íslandi, ekki sízt þegar þetta fólk er uppbúið eins og hryðjuverkamenn til að vekja skelfingu fólks.

Erlendis er þekkt vandamál, að fólk, sem á við ýmis vandamál að stríða, sækist eftir aðild að löggiltum ofbeldishópum. Fjölmennastir þar í hópi eru þeir, sem oft eru uppnefndir sem fasistar. Það er fólk, sem haldið er valdshyggju og valdbeitingarhyggju samkvæmt skilgreiningu úr bandarískum félagsvísindum eftirstríðsáranna.

Þekktust eru rit Horchheimer og Adorno um þetta efni. Þeir skilgreindu sérstakt eðli valdshyggjumannsins sem fræðilegs hugtaks. Á þeim grunni voru gerðar endurbætur í bandaríska hernum til að reyna koma í veg fyrir, að hugarfar valdshyggjunnar næði þar undirtökunum og til að tryggja borgaraleg yfirráð hans.

Þýzki herinn á eftirstríðsárunum var beinlínis alinn upp samkvæmt aðvörunum úr þessum rannsóknum. Markmiðið var, að mistök heimsstyrjaldanna tveggja endurtækju sig ekki. Þýzki herinn yrði ekki ófriðarhvetjandi. Hann átti ekki að vera stríðsmaskína, heldur borgaralegur her með vestræna hugmyndafræði að leiðarljósi.

Þægilegt væri að vita, hvers konar reglur gilda um íslenzku víkingasveitina. Hvernig er til dæmis tryggt, að þar séu ekki valdshyggjumenn í bland? Hafa sveitarmenn gengizt undir persónuleikapróf, einhverja nútímaútgáfu af prófunum, sem Horchheimer og Adorno bjuggu til fyrir bandaríska herinn?

Við þurfum líka að vita, hver vopnar sveitirnar, stjórnar því, hvað þær gera og afvopnar þær síðan að verki loknu. Er það hlutverk ríkislögreglustjóra? Nýtur hann slíks trausts í þjóðfélaginu, að það sé óhætt? Við þurfum líka að vita, hvaða reglur hafa verið settar stjórnandanum? Hver bjó þessar reglur til á hvaða forsendum?

Tvöföldun víkingasveitarinnar og yfirlýst dálæti núverandi dómsmálaráðherra á íslenzkum her og íslenzkri hermennsku, gefur tilefni til að staldra við og fá svarað spurningum af þessu tagi. Ekki er víst, að þjóðfélagið í heild sé sátt við forsendur ráðherra, sem hefur í senn eindregnar og sérstæðar skoðanir á öryggismálum.

Í friðsömu landi er mikilvægt, að sátt sé um aðgerðir, sem hugsanlega kunna að vera nauðsynlegar vegna brotthvarfs bandarískra varnarliðsins og breyttra aðstæðna í öryggismálum heimsins, þar á meðal aukinnar hættu á hryðjuverkum. Ekkert hefur verið gert til að sá til slíks trausts á víkingasveitinni.

Spurningin er gamalkunn, eldri en rústir heimsstyrjaldanna, eldri en Horchheimer og Adorno. Hún hljóðar svo: Hver verndaði Róm fyrir rómverska hernum? Hver verndar okkur fyrir verndurum okkar?

Jónas Kristjánsson

DV