Sex ógnarvopn

Greinar

Nokkur mannskæð vopn eru hlutfallslega hættulegri lífi og limum Íslendinga en ýmis vopn, sem valda usla í útlöndum. Sýnilegasta ógnarvopn landsins er bíllinn, sem jafnt og þétt krefst tuttugu mannslífa á ári. Það jafngildir tvö þúsund Spánverjum á ári og tuttugu þúsund Bandaríkjamönnum á ári.

Þótt hryðjuverkin á Manhattan og í Madrid jafnist ekki á við bílinn, höfum við ekki farið þá leið að banna hann. Við teljum okkur ekki geta án hans verið og gerum ótal hluti til að draga úr ógninni, leggjum hringtorg, setjum upp hraðahindranir, byggjum mislæg gatnamót, spennum bílbelti.

Svipað gildir um fjögur önnur ógnarvopn, sem eyða tugum mannslífa á ári hverju hvert um sig. Þau eru tóbak, áfengi, gleðipillur og sykur. Kerfið hefur enn ekki áttað sig á stöðu sykurs í þessum félagsskap ógnarvopna, en bönd vísindanna hafa borizt hratt að honum á allra síðustu árum.

Við leyfum sölu sykurs uppi á borði í hversdagsbúðum og sölu tóbaks undir borði í sömu búðum. Við leyfum sölu áfengis í sérstökum verzlunum og sölu á gleðipillum í annars konar sérverzlunum samkvæmt tilvísun sérfróðra manna. Á sama tíma er fé notað til að vara við flestum þessara ógnarvopna.

Áfengi var einu sinni bannað hér eins og víðar í heiminum. Bandaríkjamenn hafa þá reynslu af banninu, að það dró úr áfengisneyzlu en flutti inn annan og skæðari vanda, mafíuna. Slík fyrirbæri sogast alltaf að bannríkjum og gerast þar áhrifamikil neðanjarðaríki, sem ógna tilveru þjóðfélagsins.

Það gerist alls staðar, þar sem fíkniefni eru bönnuð. Tíðni glæpa margfaldast. Undirheimar taka við af ríkisvaldi sem hornsteinar í lífi fólks, grafa undan réttarfari og fjárhag og safna ótrúlegum auðævum á hættulegum stöðum. Þess vegna er skynsamlegra, að ríkið taki að sér sölu ólöglegra efna.

Þetta segir alvörugefna tímaritið Economist og þetta segja margir sérfræðingar. Helmingi af vanda fíkniefna væri sópað út með því að lögleiða þau undir verndarvæng ríkisins eins og sykur og tóbak, áfengi og gleðipillur. Ríkinu er ekki lengur ógnað af undirheimum, sem grafa undan þjóðfélaginu.

Það þykir hneyksli að segja slíkt. Annað hljóð mun smám saman koma í strokkinn, þegar alþjóðleg glæpasamtök hafa haslað sér völl hér á landi í skjóli þess, að ríkið neitar að reyna að halda vandanum í skefjum á sama hátt og það reynir að hemja vanda tóbaks, áfengis og gleðipilla.

Það gildir um öll þessi sex ógnarvopn, eins og önnur ógnarvopn, að þau verða hvorki bönnuð né sigruð í stríði, heldur verður að beita ýmsum ráðum til að halda þeim í skefjum og sætta sig við, að fullur árangur náist ekki.

Jónas Kristjánsson

DV