Pólitískt trúarofstæki

Greinar

Þeir höfðu engan áhuga á Osama bin Laden og Al Kaída, en voru helteknir af Saddam Hussein og Írak. Þeir stefndu að árás á gamlan skjólstæðing í Bagdað. Þeir vildu ekki sinna neinum gagnrökum og þess vegna komu árásirnar á World Trade Center og Pentagon eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Þetta voru George W. Bush Bandaríkjaforseti og Donald Rumsfeld stríðsráðherra, Condoleezza Rice öryggisstjóri og Paul Wolfowitz hugmyndafræðingur. Þetta er gengið, sem hefur snúið heimsmálunum á annan endann og gert Bandaríkin að mestu ógnun nútímans við öryggi og frið á Vesturlöndum.

Öryggisráðgjafi fjögurra forseta, þar á meðal tveggja, sem heita Bush, hefur kastað sprengju á Hvíta húsið með bók um viðhorf Bushíta til öryggismála. Bók Richard Clarke og umræðan um hana hefur varpað skýru ljósi á dómgreindarskort og ofsatrú hópsins, sem hann vann fyrir í Hvíta húsinu.

Það var sannfæring gengisins, að hryðjuverk væru sprottin af óvinveittum stjórnvöldum. Gengið áttaði sig ekki á, að tækni og fjarskipti nútímans gera hryðjuverkamönnum kleift að valda miklum skaða án aðstoðar ríkisstjórna. Árásin á World Trade Center og Pentagon var dæmi um ríkislaust hryðjuverk.

Rumsfeld trúði ekki í fyrstu, að Al Kaída stæði að baki hryðjuverksins. Enda hafði Wolfowitz sagzt vera orðinn þreyttur “á stöðugu tali um þennan eina mann, bin Laden”. Þegar sannleikurinn kom í ljós, hamraði Rumsfeld á því, að einhvers staðar hlyti Saddam Hussein að vera að tjaldabaki.

Síðan hefur komið í ljós, að ekkert var hæft í forsendum stríðsins gegn Írak. Þar voru engin gereyðingarvopn og þar var engin uppspretta hryðjuverka á Vesturlöndum. Saddam Hussein var ekki einu sinni hættulegur nágrannaríkjunum, þótt hann reyndi að sýnast öflugri en hann var í raun.

Fleiri sérfræðingar hafa tjáð sig. David Kay, yfirmaður vopnaleitar bandaríska hernámsliðsins í Írak, fullyrðir, að engin gereyðingarvopn hafi verið í Írak. Von er á bók sendiherrans Joseph Wilson, þar sem hann sýnir fram á, að gengið í Hvíta húsinu hafi litið framhjá sönnunargögnum.

Ofstækismenn Hvíta hússins trúa bara því, sem þeir vilja trúa og taka ekkert mark á staðreyndum. Þeir ganga fram af offorsi trúarofstækis og hirða ekki um, þótt verk þeirra gangi fram af fólki um allan heim. Gengið lék sér að því að láta drepa 10.000 óbreytta og saklausa borgara í Írak.

Verði framhald á dvöl hins róttæka og dómgreindarskerta stríðsglæpagengis í Hvíta húsinu á næsta kjörtímabili, mun það leiða ógn og skelfingu yfir mannkynið.

Jónas Kristjánsson

DV