Við erum ekki á verði

Greinar

Við verðum að skilja eðli hryðjuverka til að geta varizt þeim. Brýnt er að átta sig á, að þau eru ekki bundin við átakasvæði. Þeim getur lostið niður hvar sem er. Við megum heldur ekki gleyma hættunni af að vera aðilar að krossferð trúarofstækis Bandaríkjanna gegn áhangendum Íslams.

Flestir skilja, að hryðjuverk geta blómstrað án aðildar óvinaríkja. Bandaríkin voru illa undir 11. september búin, af því að ríkisstjórnin var með ríkið Írak á heilanum, en ekki hreyfinguna Al Kaída. Eftir hryðjuverkið héldu Bushítar áfram að leita að rótum þess í herráði Saddam Hussein.

Einnig ber að forðast að skilja Al Kaída á sama hátt og okkur hættir til að skilja það, sem við köllum Mafíu. Í báðum tilvikum sjá menn fyrir sér miðstýrð samtök um skipulagða glæpi. Réttara er að líta á fyrirbærin sem svipaða hugmynda- og aðferðafræði laustengdra glæpaflokka.

Ekki er til nein ein mafía, heldur margar mafíur, sem sumar hafa með sér meira eða minna tímabundið samkomulag um skiptingu svæða og verkefna, en eiga ekki sjaldnar í erjum innbyrðis um þessa skiptingu. Þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að sigra mafíur með því að fella mafíukónga.

Al Kaída er ekki heldur félagsskapur, sem lýtur einum húsbónda, Osama bin Laden, og herforingja hans, Ajman Al-Sjavari. Hópur þeirra telur aðeins nokkur hundruð manns. Hins vegar hafa tugþúsundir ungra manna gengið í skóla, sem meira eða minna byggjast á hugmyndum frá Osama bin Laden.

Þessar þúsundir skólagenginna hryðjuverkamanna leika lausum hala víða um heim og þjálfa nýja fylgismenn. Krossferðin gegn múslimum hefur magnað hatur þeirra á vestrinu, einkum Bandaríkjunum, og leitt til flóðs ungra manna í námskeið í hryðjuverkum, sem talin eru eina vopnið gegn hernaðarmætti.

Róm féll ekki fyrir öðru heimsveldi, heldur fyrir meira eða minna ótengdum hópum barbara, villimanna, sem höfðu meira úthald en heimsveldið. Í nútímanum hafa slíkir hópar barizt áratugum saman, Kínakommar, Víetnamar, Sandínistar, Afganar, Palestínumenn, Tsjetsjenar. Sumir þeirra hafa náð árangri.

Aðferðafræði hryðjuverkamanna er orðin háþróuð og byggist á sambandsleysi milli hópa, svo að þræðirnir milli þeirra verði ekki raktir. Hóparnir eru tifandi tímasprengjur hver í sínu horni. Osama bin Laden veit ekki sjálfur, hvar höggið ríður næst á Vesturlöndum. Hann deyr, en aðferðin lifir.

Við þessar aðstæður er út í hött að treysta á heimsóknir bandarískra flugsveita og lambhúshettulið ráðherra dómsmála. Hvort tveggja jafngildir því, að við erum alls ekki á verði.

Jónas Kristjánsson

DV