Einbeittur brotavilji

Greinar

Verktakinn Impregilo hefur í heilt ár verið vikulega í fréttum vegna einstakrar tregðu við að fara eftir lögum og reglum á Íslandi. Fyrirtækið hefur farið undan í flæmingi og látið seint og illa af brotum á lögum og reglum. Á málfari dómstóla er þetta viðhorf kallað einbeittur brotavilji.

Fyrst var fyrirtækið stutt opinberum eftirlitsstofnunum, sem vörðu það í hástert, einkum vinnueftirlitið, en einnig heilbrigðiseftirlitið, sveitastjórnir og skattayfirvöld. Það var ekki fyrr en eftir langvinnan þrýsting verkalýðsfélaga, að opinberar stofnanir milduðu smám saman hlutdrægni sína.

Síðan vinnueftirlitið sneri við blaðinu hefur það margsinnis þurft að fylgja fyrirmælum sínum eftir og hóta lokun. Þetta gerðist þó of seint til að hindra dauðaslys í gljúfrunum, sem stafaði af lélegu öryggiseftirliti og gölluðu áhættumati. Hvorugt er komið í lag, þrátt fyrir hótanir.

Heilbrigðiseftirlitið hefur hundskazt til að stíga skrefinu framar. Það missti þolinmæðina og skellti 70.000 króna dagsektum á Impregilo út af mötuneytinu. Þá fyrst tók verktakinn við sér og fór að sinna kröfum eftirlitsins. Þetta hefði átt að vera lærdómsríkt öðrum opinberum aðilum.

Sveitarstjórnir fyrir austan voru lengi með glýju í augum, en eru um síðir farnar að óttast um útsvarstekjur af starfsmönnum, sem koma og fara, án þess að menn fái rönd við reist. Það kom þeim í opna skjöldu, að Impregilo skyldi nota starfsmannaleigur, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sínar.

Mál verktakans er á borði ríkisskattstjóra, sem er þögull sem gröfin. Hann á þó í miklum erfiðleikum, því að honum verður um kennt, ef hluti af skatttekjum ríkisins fer forgörðum vegna sinnuleysis embættis, sem fylgist ekki með fréttum, er hafa lengi verið umræðuefni þjóðarinnar.

Sárastur er brotaviljinn fyrir verkalýðsfélögin, sem á sínum tíma lögðu lóð sitt á vogarskál hrikalegrar aðfarar stjórnvalda og Landsvirkjunar að ósnortnum víðernum hálendisins. En raunar er við hæfi, að afleiðing ódæðisins skuli vera aðför að réttindum skjólstæðinga félaganna.

Impregilo hefur alizt upp í hörðum skóla þriðja heimsins, þar sem mútur og spilling koma í stað laga og réttar. Þar sem hefðbundnir verktakar á vestrænum markaði vildu forðast stimpil umhverfisglæpa og hættu við að bjóða í verkið, sat Landsvirkjun uppi með fyrirtæki einbeitts brotavilja.

Liðið er ár síðan Impregilo hóf verkið. Enn sitja menn með sveittan skallann við að reyna að fá fyrirtækið til að trúa, að Ísland sé ekki í þriðja heiminum. En er það svo?

Jónas Kristjánsson

DV