Freistað til getnaðar

Greinar

Samkvæmt nýrri rannsókn í Bretlandi kostar 20 milljónir króna að koma barni til manns, frá fæðingu til háskólagráðu. Er þá allt talið, kostnaður foreldra, opinberra aðila og hugsanleg námslán barnanna. Þetta er gríðarlega mikið fé og væri raunar mikið fé, þótt krónutalan væri miklu lægri.

Opinberir aðilar taka mikinn þátt í þessum kostnaði. Skólar eru að mestu ókeypis eftir að leikskóla lýkur og allt upp að háskólum, sem eru verulega niðurgreiddir. Heilsugæzla er að mestu ókeypis á þessum aldri, þar með taldar tannlækningar. Einnig fá foreldrar ýmis fríðindi í sköttum og tryggingum.

Þrátt fyrir alla þessa aðstoð lendir gífurlegur kostnaður á foreldrum, einkum í húsnæði og uppihaldi, sem nú orðið felur í sér áður óþekkt atriði á borð við græjur og tölvur. Og á þessum ríkustu tímum sögunnar eru opinberir aðilar í auknum mæli að ýta skólagjöldum yfir á herðar barna og foreldra.

Fróðlegt væri að rannsaka, hversu mikill kostnaður fellur á foreldra af hverju barni. Með tilvísun til niðurstöðu brezku rannsóknarinnar skiptir hann örugglega mörgum milljónum á hvert barn hér á landi. Óhætt er að fullyrða, að það er enginn barnaleikur að eiga börn, þrátt fyrir velferðina.

Eigi að síður er fólk reiðubúið til að eignast börn, að minnsta kosti upp að vissu marki. Með því er fólk auðvitað að eignast verðmæti, sem ekki verða talin í krónum, evrum eða pundum. Gleði foreldra er slík af börnum, sem vaxa úr grasi, að hagfræði eða peningafræði verða léttvæg á metum.

Um leið er þetta stórpólitískt mál, sem beinlínis varðar öryggi ríkisins. Spurning Stóra bróður er sú, hvort nógu mörg börn fæðist til að líklegt megi telja, að framtíð ríkisins sé trygg. Margar þjóðir Evrópu eru komnar í þá stöðu, að fæðingar megna ekki að halda uppi íbúafjölda.

Til skamms tíma reyndu vestræn ríki í misjöfnum mæli að brúa bilið með því að flytja inn fólk. Það er auknum annmörkum háð, því að ríkisvaldið hefur ekki gætt þess að afla hljómgrunns meðal kjósenda fyrir slíkum innflutningi. Þess vegna er víða verið að setja skorður við innflutningi fólks.

Velferðarkerfi Vesturlanda byggist á þeirri forsendu, að alltaf séu nýir hópar að koma til starfa, sem leysi af hólmi hina, sem fara á ellilaun. Ef þetta kerfi bilar, verður Stóri bróðir að finna leiðir til að fá fólk til að eiga fleiri börn. Hann verður hreinlega að bjóða betri kjör.

Ef Íslendingar fara í auknum mæli að tregðast við að eignast börn, liggur beinast við, að opinberir aðilar neyðist til að bjóða ókeypis leikskóla til að freista fólk til getnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV