Rossopomodoro

Veitingar

**
Mistækur a annan mat

Espresso-kaffi var slappt á nýju Rossopomodoro í húsi Iðunnar að Laugavegi 40a, þunnt og sviplaust, án eftirbragðs, líklega ekki úr espresso-baunum, minnti á kaffið í flugstöðunni á Keflavíkurvelli, líklega úr svoleiðis maskínu.

Saltfiskurinn, sem staðurinn mælir með, var ekki heldur góður, of snöggt og of lítið bakaður í álpappír með olífuolíu, tómati, olífum og kapers, sem runnu ekki saman við fiskinn og gátu ekki falið, að fiskurinn var illa útvatnaður. En fiskimagnið var feiknarlegt.

Kartöflur fylgdu ekki með saltfiskinum, en hins vegar öðrum réttum staðarins, nema pöstum og pítsum, stórar kartöflur, skornar í báta, saltaðar og djúpsteiktar, betri en hefðbundnar franskar.

Bezti rétturinn, sem ég fékk í Rossopomodoro voru þunnt sneiddar lambakótilettur, hæfilega fituskornar og hæfilega eldaðar, farsælt kryddaðar með hvítlauk, olíu, mintu og chili, bornar fram með kartöflum og hrásalati. Þær verða ekki betri í nýklassískum matarmusterum borgarinnar.

Á öllum borðum eru balsam-edik frá Modena, tvær tegundir jómfrúarolíu og pipar, hráefnin í vinaigrette sósu fyrir hrásalatið. Þú hellir þessu fyrst í litla skál, hristir upp í henni með gaffli og sullir síðan á salatið.

Hér fékkst góð Ventura pítsa með hráskinku, parma-osti og ruccola klettasalatblöðum, sem passar vel við pítsu. Ég fékk pítsuna og kótiletturnar að kvöldi, þegar fullskipað var á staðnum og væntanlega öflugar skipað starfsliði í eldhúsi en í hádeginu.

Lítið var um að vera í hádeginu og maturinn yfirleitt ekki merkilegur. Þá var kjúklingabringa þurr og köld og djúpsteiktir smokkfiskhringir bragðlausir. Hvort tveggja var umfangsmikill matur, en ekki minnisstæður.

Þetta er um 70 manna staður. Andspænis inngangi er pítsuofn með hvítu mósaíki. Salurinn umhverfis er að mestu hvítur með bronzlitum ljósum og tómatdósamálverkum á veggjum. Borð og stólar úr tré eru snyrtilegir og þjónusta var frambærileg.

Að meðaltali kosta pöstur 1420 krónur, pítsur 1400 krónur, forréttir 1490 krónur, grillréttir 2300 krónur, lambið góða 2770 krónur, salöt 1400 krónur, eftirréttir 850 krónur og kaffi 270 krónur.

Þetta er fyrst og fremst staður fyrir pöstur og pítsur, mistækur á annan mat.

Jónas Kristjánsson

DV