Spánskt fyrir sjónir

Greinar

Neytendablaðið efast í leiðara um, að áhugi stjórnvalda á hagsmunum almennings hafi ráðið ferð þeirra með frumvarp um fjölmiðla. Stjórnvöldin hafi almennt ekki sýnt hagsmunum almennings neinn sérstakan sóma. Nefnir blaðið innheimtulög, matvælaverð og fjársvelti Samkeppnisstofnar sem dæmi.

Raunar eru það ekki bara mál neytenda, sem sitja á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn. Almennt hefur hún lítinn áhuga á hagsmunum smælingja. Hún sveltir sjúkrahús og skóla. Hún reynir að brjóta niður velferðarkerfið og búa til kerfi, þar sem menn greiða sjálfir sem mest fyrir opinbera þjónustu.

Hugmyndafræðilega ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn landsins, studdur Framsóknarflokknum, sem hefur verið að flytjast til hægri í pólitíkinni. Í þessari hugmyndafræði skiptir aukið og sem allra mest svigrúm einkaframtaksins og fjármagnsins miklu meira máli en velferð smælingjanna.

Kjarni málsins er, að við höfum lengi búið við ríkisstjórn í þágu hinna sterku og hinna ríku. Ekki er eðlilegur liður í þeirri hægri sinnuðu hugmyndafræði, að ríkið ráðskist með fjölmiðla. Það er sagnfræðileg tilviljun, að ríkisstjórnin fékk ákveðnar sviptingar í fjölmiðlun landsins á heilann.

Fyrir tveimur árum áttu aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum DV og aðilar tengdir honum sóttust eftir væntanlegu þrotabúi Stöðvar 2. Ef þau dæmi hefðu gengið upp, hefði ríkisstjórnin ekki haft neinn áhuga á einokun og hringamyndun fjölmiðla. Ríkisstjórnin hefði talið sig og sín gæludýr í góðum málum.

Með fjölmiðlalögunum eru flokkar ríkisstjórnarinnar ekki að gæta almannahagsmuna, heldur að reyna að hefna sín á þeim aðilum, sem hindruðu fyrirhugaða einokun hennar á mikilvægum fjölmiðlum. Eins og Neytendablaðið bendir á, kemur þessi skyndilegi áhugi stjórnvalda heldur spánskt fyrir sjónir.

Ríkisstjórnin er nú að innleiða skólagjöld og spítalagjöld, annars vegar til að spara ríkispeninga og hins vegar til að binda þessa þjónustu við þá, sem betur mega sín og hafa ráð á að borga sinn hluta. Þetta er hugmyndafræði, sem hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum.

Gegn þessari hugmyndafræði er lítið um varnir, nema helzt frá reglugerðum Evrópusambandsins, sem íslenzk stjórnvöld neyðast til að láta þýða á íslenzku vegna skuldbindinga sinna á vegum Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessum reglum er oft mikil velferðarhugsun, margvísleg verndun smælingja.

Þegar hægri sinnuð ríkisstjórn tekur upp hjá sjálfri sér að berjast fyrir meintum almannahagsmunum í einu og einstöku máli, er eðlilegt, að slíkt komi okkur spánskt fyrir sjónir.

Jónas Kristjánsson

DV