Reiknað fríhendis

Greinar

Þótt Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi valtað yfir keppinauta sína um forsetaembættið með öllum þorra gildra atkvæða, var sigur hans ekki alger. Minni þáttaka en áður og þó enn frekar hin mörgu auðu atkvæði valda því, að hér eftir er næstum hægt að tala um hann sem umdeildan forseta.

Andstæðingar hans mikla fyrir sér, að hann hafi ekki fengið stuðning helmings kjósenda. Þeir telja saman þá, sem heima sátu, sem auðu skiluðu eða gerðu ógilt og sem kusu annan hinna tveggja. Með sama reikningi má benda á, að flokkar stjórnarinnar fengu síðast ekki fylgi helmings kjósenda.

Þáttakan og auðu atkvæðin varpa ekki miklum skugga á traust þjóðarinnar á forsetanum. Þau eru hins vegar ábending um, að andstæðingar fjölmiðlalaganna eiga ekki auðvelt tafl í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust. Þau benda til, að fjölmennur minnihluti styðji fjölmiðlastefnu stjórnvalda.

Ríkisstjórnin á mikið í auðu atkvæðunum, enda gaf málgagn forsætisráðherra út óbeina dagskipun á forsíðu um gildi auðra atkvæða. Ætla má, að það séu einkum eindregnir stuðningsmenn fjölmiðlalaganna, er valdi því, að auðir seðlar voru margfalt fleiri en verið hefur hér á landi.

Einnig má ætla, að hún eigi mikið í atkvæðum Baldurs Ágústssonar, sem byggði kosningabaráttu sína á andstöðu við málskotsréttinn og stuðningi við fjölmiðlafrumvarpið. Ætla má, að allur þorri fylgis hans muni í haust falla á sama veg og allur þorri þeirra, sem skiluðu auðu í kosningunum.

Í þriðja lagi má reikna með, að fjölmiðlalögin hafi nokkuð gott fylgi meðal þeirra, sem venjulega hafa komið á kjörstað, en sátu heima að þessu sinni. Að öllu samanlögðu má segja, að þriðjungur kjósenda hafi í forsetakosningunum gefið í skyn, að hann muni styðja fjölmiðlalögin í haust.

Þótt forsetinn hafi fengið mun meira fylgi en hér hefur fríhendis verið reiknað á fjölmiðlalögin, er óvíst, að allir kjósendur hans séu andvígir þeim. Búast má við, að nokkur meirihluti þjóðarinnar sé gegn þeim núna, en það getur breytzt í haust, ef stjórnarflokkarnir ná vopnum sínum.

Ef flokkar ríkisstjórnarinnar hvetja fólk til að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að hindra þjóðarviljann í að komast yfir smíðaða þröskulda, jafngildir það uppgjöf hennar. Því má búast við snarpri baráttu um fjölmiðlalögin. Þar mun hvorugur aðilinn láta hinn eiga neitt inni hjá sér.

Forsetakosningarnar segja okkur ekki, hvernig atkvæði þjóðarinnar muni falla í haust. En þær benda eigi að síður til, að fylgismunur sjónarmiðanna sé ekki eindreginn.

Jónas Kristjánsson

DV