Alls engin tímamót

Greinar

Ráðamenn landsins virðast lifa í sérstökum heimi, þegar þeir fara til útlanda, sérstaklega þegar þeir hitta starfsbræður sína. Þennan heim má sjá, þegar málgagn ríkisstjórnarinnar skýrir frá viðbrögðum þeirra við fundum, sem þeir sækja, til dæmis fundi Atlantshafsbandalagsins, sem nú var í Istanbul.

Þetta er enginn tímamótafundur bandalagsins. Erlendir fréttaskýrendur kalla hann: Beðið eftir Godot eða Beðið eftir nóvember. Með öðrum orðum eru allir að bíða eftir, að nýr forseti verði kosinn í Bandaríkjunum, svo að hjól samstarfs Vesturlanda geti byrjað að hökta fram að nýju.

Meðan George W. Bush er Bandaríkjaforseti reyna ráðamenn í Evrópu að tefja tímann, samþykkja eitthvað, sem heldur friðinn, en færir þeim engar skyldur. Menn samþykkja ekki að senda hermenn til Íraks, en samþykkja í staðinn að taka að sér að þjálfa írakska hermenn annars staðar í heiminum.

Frá því að Bush og stjórn hans lýstu algeru frati á Atlantshafsbandalagið fyrir þremur árum hefur verið biðstaða í málum þess. Það á erfitt með að fóta sig í lífinu, er að missa friðargæzlu á Balkanskaga til Evrópusambandsins og gengur illa að halda uppi friði í stríðshrjáðu Afganistan.

Öllum er ljóst, að Atlantshafsbandalagið er í vandræðum með sig og framtíð sína. Meðan Bush er forseti gerist ekki neitt annað en, að menn samþykkja gildisrýrar yfirlýsingar. Ef utanríkisráðherra Íslands trúir slíkum yfirlýsingum, er hann úti að aka í embætti sínu og ætti ekki að fjölyrða margt.

Bandaríkjastjórn hefur gert ýmislegt til sátta við Evrópu, en það dugar ekki að mati Frakklands, Þýzkalands og Spánar og ýmissa annarra landa. Fréttir af víðtækum stríðsglæpum Bandaríkjanna og augljóst þjóðarhatur Íraka á Bandaríkjunum veldur því, að evrópskir ráðamenn fara einstaklega varlega.

Allir vita þessa stöðu og tala um hana, nema ráðamenn Íslands, sem virðast ímynda sér, að tímamótaatburðir séu að gerast í Atlantshafsbandalaginu. Það, sem þar er að gerast, er einmitt andstæðan við tímamót. Menn eru að halda sjó meðan þeir skima eftir skárri tíð með Kerry í stað Bush.

Menn vilja sýna slétt og fellt yfirborð, þótt undir kraumi. En ábyrgðarlaust er af ráðamönnum Íslands að reyna að telja sér og öðrum trú um, að ástandið sé öfugt við veruleikann.

Jónas Kristjánsson

DV