Sykurskattur

Greinar

Fáir hafa áttað sig á, að fíkniefnið sykur er eitt mesta ógnarvopn nútímans, meginorsök margra sjúkdóma og fleiri dauðsfalla en þeirra, sem stafa af áfengi eða tóbaki, ólöglegum fíkniefnum eða löglegum lyfjum. Sykur er skæðari en bíllinn og allir hryðjuverkamenn heimsins samanlagðir.

Eðlilegt og sjálfsagt er, að fyrr en síðar verði reynt að stemma stigu við sykri með skatti og öðrum takmörkunum, sem notaðar hafa verið gegn öðru eitri. Áfengi og tóbak og bílar eru strangt skattlagðar vörur, tóbak er selt undir borði í verzlunum, áfengi og lögleg lyf í sérstökum verzlunum.

Ef menn telja, að reynslan sýni, að unnt sé að draga úr notkun áfengis og tóbaks með skatti og öðrum takmörkunum, er eðlilegt framhald að beita sömu aðferðum gegn sykri. Það þýðir, að hreinn sykur og viðbættur sykur í matvælum sæti háum skatti og að hreinn sykur verði seldur í sérverzlunum.

Sykur varð ekki almenningseign fyrr en fyrir tæpri öld og hefur orðið á þeim tíma að heilsufarslegu reiðarslagi fyrir mannkynið. Fremst í flokki birtingarmynda hans er gosið, sem unga fólkið drekkur í lítratali. En viðbættur sykur er til dæmis líka í nánast öllum vörum íslenzka mjólkuriðnaðarins.

Margir hafa ekki enn áttað sig á þessu. En niðurstöður rannsókna tala sínu máli. Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir sykur. Blóðið fer á ringulreið og boðefnaskipti heilans einnig. Verst er, að sykur er fíkniefni. Mikil notkun kallar á enn meiri notkun. Menn verða háðir honum eins og tóbaki.

Sykurneyzla er stærsti þátturinn í offitu nútímafólks og sjúkdómum, sem fylgja offitunni. Bandarískar bókabúðir eru fullar af hundruðum mismunandi titla, sem boða ýmsar megrunaraðferðir. Fólk kaupir bækurnar og heldur áfram að fitna. Svo sterkur er sykur, að góður vilji má sín lítils.

Íslendingar eru aðrir mestu sykurneytendur heims, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Offita er orðinn að sprengjunni í heilbrigðiskerfi landsins og mun fyrr en síðar setja fjármögnun þess endanlega úr skorðum. Samfélagið hefur ekki ráð á að greiða herkostnaðinn af óhóflegri sykurneyzlu.

Ríkið mun fljótt reyna að hafa upp í herkostnaðinn af sykri með skatti á hann. Þær hugmyndir, sem Hagfræðistofnun Háskólans er að gæla við, eru hins vegar svo lágar, að þær eru ekki raunhæfar. Verð á sykurkílói þarf ekki að hækka um einhverjar prósentur, heldur þarf að margfalda verðið.

Skattur leysir ekki vandann, en útvegar stjórnvöldum fé til að halda áfram að standa vörð um velferðarkerfið, þegar heilsu þjóðarinnar heldur áfram að hraka af völdum sykurs.

Jónas Kristjánsson

DV