Yfirstéttin sleppur

Greinar

Skattur af vinnutekjum venjulegs fólks er fjórfalt hærri en skattur af fjármagnstekjum yfirstéttarinnar. Hún borgar 10% af tekjum sínum, en almenningur rúmlega 40%. Yfirstéttin kemst upp með þetta, af því að fjármagn er hreyfanlegra en vinnuafl og getur flotið milli landa eftir hentugleikum.

Skúringakonan getur ekki flutt vinnu sína til útlanda, ef henni finnst of mikið að borga 40% skatt. Stórforstjórinn getur hins vegar flutt fjármagn sitt til útlanda, ef þar bjóðast betri skattakjör en hér á landi. Í hnattvæddum heimi nútímans er hann nokkrar sekúndur að koma fénu í betri höfn.

Þótt stjórnvöld hefðu eins mikið dálæti á skúringakonunni og þau hafa á stórforstjóranum, gætu þau ekki eytt mismuninum á skattlagningu fjármagns og vinnu. Þau gætu dregið úr honum, en verða jafnframt því að fylgjast með stöðu og framvindu skattamála í öðrum löndum, einkum þeim, sem næst standa.

Hnattvæðing fjármála veldur því, að smáríki getur ekki eitt og sér jafnað skattprósentuna. Það verður að sigla svipaðan sjó og önnur ríki. Ef það vill auka skattinn, er bezta ráðið að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um sameiginlega stefnu margra ríkja í skattamálum, einkum í Evrópusambandinu.

Spurningin er því ekki, hvort ríkisstjórn Íslands vill koma á jafnvægi í skattheimtu fjármagns og vinnu, heldur hvort Evrópusambandið fæst til þess. Á því eru tormerki, því að sum ríki, einkum Bretland, eru algerlega andvíg forræði Evrópusambandsins í skattamálum eins og ýmsum öðrum málum.

Ef Evrópusambandið getur komið á jafnrétti í skattamálum, getur það um leið notað risavaxna stærð sína til að þvinga skattaparadísir til að makka rétt, svo að fjármagnið flýi ekki til eyríkja í Karabíska hafinu. Evrópusambandið er orðið stærsta efnahagsveldi heims og getur ráðið við þetta.

Ef hér á landi kemst til valda ríkisstjórn, sem hefur sama áhuga á skúringakonunni og stórforstjóranum, er hægt að minnka misræmið. Skattar á launum eru tiltölulega háir hér á landi miðað við Evrópusambandið og skattar á fjármagni eru langtum lægri hér á landi en í mörgum nálægum Evrópulöndum.

En tilraunir til algers réttlætis koma ekki að gagni, nema tryggt sé, að hliðarverkanir á borð við fjármagnsflótta séu innan hóflegra marka. Í hnattvæddum heimi vinnst réttlæti ekki á vettvangi Alþingis eða ríkisstjórnar Íslands, heldur á samevrópskum vettvangi fjöldans, í Evrópusambandinu.

Sjálfsagt er að styðja stjórnmálaöfl til að minnka bilið í skatti almennings og yfirstéttar. En full jafnstaða og fullt réttlæti næst aðeins með baráttu innan Evrópusambandsins.

Jónas Kristjánsson

DV