Fasismi fölnaði

Greinar

Mussolini þurfti að vinna sín stríð og hann mátti ekki sýna líkamlegan veikleika. Blettur má ekki falla á brynju fasistahertoga. Þá fara menn að missa tröllatrúna á hertogann mikla og fara að hætta að óttast hann. Þannig verður hann venjulegur og er ekki lengur talinn skaffa.

Hertoginn hefur tapað sínu fjölmiðlastríði og hefur verið á sjúkrahúsi. Skyndilega hefur þagnað hópurinn, sem hermdi eftir honum og vildi valta yfir umheiminn. Loksins erum við komin í frí fyrir stjórnmálum og verðum í friði í tvo mánuði áður en hvellur getur hafizt aftur með nýrri setu Alþingis.

Framsóknarflokkurinn gat ekki lengur fylgt formanni sínum í eindregnum og skilyrðislausum stuðningi við hertogann mikla. Meirihluti ráðherranna, þingflokksformaðurinn og nokkrir fleiri eru að vísu hálfgerðir fasistar, en réðu greinilega ekki lengur við óbreytta þingmenn og aðra brýna flokksmenn.

Í haust verður ríkisstjórnin án hertoga að hætti fasista. Formaður Framsóknar er að vísu herskár í utanríkismálum, en hefur enga persónulega framgöngu, sem minnt getur á Mussolini eða Tony Blair. Hann verður bara forsætisráðherra að hefðbundnum íslenzkum hætti, maður miðju og málamiðlana.

Stefna ríkisstjórnarinnar verður að vísu lítið breytt, enda fer einn ráðherrastóll frá Framsókn til Sjálfstæðisflokks. Áfram verður stjórnin herská í utanríkismálum, styður hernám Afganistans og Íraks gegn vilja þjóðanna og styður stríðsóð Bandaríkin í deilum þeirra innan Atlantshafsbandalagsins.

Að öðru leyti má búast við, að ríkisstjórnin fari að draga í land. Hún mun hætta að snapa fæting við allt og alla og reyna að hætta að gelta þindarlaust að forseta Íslands. Kjósendur munu ekki leyfa Framsóknarflokknum lengur að haga sér að hætti fasistanna, sem hafa tekið Sjálfstæðisflokkinn.

Þjóðin hefur fengið nóg af yfirgangi í bili. Bullur að hætti fasista hafa komið fram í birtuna í vor og sumar og skilið eftir efasemdir í röðum kjósenda. Menn vilja að vísu leiðtoga, sem skaffa, en mönnum finnst of langt gengið að þurfa þess vegna að kjósa yfir sig valdshyggjulið fasista.

Vonandi verður lærdómur kjósenda varanlegur af pólitískum atburðum síðustu tveggja missera. Vonandi eru þeir ekki bara tímabundið móðgaðir út í stjórnarflokkana, heldur hafa þeir varanlega áttað sig á, að þjóðinni hentar betur að hafa sama háttinn á og nágrannarnir, hafa venjulega forsætisráðherra.

Fasismi birtist oft í lýðræðisríkjum, sem hafa veikar hefðir fyrir leikreglum, svo sem í Suður-Ameríku og á Ítalíu. En hér norður í höfum er tæpast pláss fyrir lítinn Mussolini.

Jónas Kristjánsson

DV