Þrír frakkar

Veitingar

****
Reykt hrefna

Reykt hrefna er skemmtileg nýjung á Þremur frökkum, dálítið væmin, mætti vera meira reykt og þynnra skorin. Ég fékk hana á diski með piparrót, tveimur tegundum af hráum fiski og laxahrognum. Þetta var dæmigert hrámetis sashimi að japönskum hætti, eitt aðalsmerkja þessa góða staðar.

Að öðru leyti er staðurinn fiskréttastaður, með níu eða tíu fiskrétti í boði tvisvar á dag, fyrir 1520 krónur að meðaltali í hádegi og 2540 krónur að kvöldi, með tærri og sterkri súpu innifalinni í hádeginu. Hann hefur alltaf verið og er enn í ódýrari helmingi íslenzkra veitingahúsa.

Þrír frakkar hæfa Íslendingum og gestum þeirra, svo og slæðingi af sendiráðsfólki og ferðamönnum. Staðurinn hefur góða nærveru, volgt brauð og nóg af vatni, er jafnan fullur af fólki, með kliði nokkurra tungumála. Í hádeginu er hann staður karla, sem tala í gemsann, meðan þeir borða.

Staðurinn hefur jafnan verið franskt bistró í innréttingum, stemmningu, gestum og verðlagi. Þessi manneskjulegi og glaðværi staður er fyrir löngu orðinn einn af hornsteinum veitingamennsku landsins, með elskulegri og dugmikilli þjónustu, en daprari fjölbreytni en áður í eldhúsinu.

Hér fæ ég fínasta plokkfisk með rúgbrauði og vel útvatnaðan saltfisk með ýmsum hætti, síðast fínlega pönnusteikt hnakkastykki með furuhnetum, möndlum, rúsínum og eplum. Þetta var næstum nýfrönsk matreiðsla, ekki jóðlandi í sósu eða krydduðu tómatmauki, sem tíðkast víða um bæ.

Hér fæst ekki ýsa, en smálúða er einkennisrétturinn, oft með nokkrum litlum humrum og miklu magni af þykkri humarsósu, sem hnígur varla. Það eru einmitt þessar þungu sósur, sem mundu flokka Þrjá frakka í sósueldhúsið, ef eldunartími lúðu og grænmetis væri ekki hæfilega skammur, nánast nýfranskur.

Annað dæmi um gamla sósueldhúsið á Þremur frökkum var hvítlauksristuð öðuskel í gratíni, tvær stórar skeljar fullar af grænmeti og skelfiski, allur diskurinn fljótandi í sósu. Plokkarinn og saltfiskurinn og sumir grillfiskar voru hins vegar blessunarlega lausir við sósuflauminn.

Í rauninni eru Þrír frakkar afar staðlaður staður tiltölulega fárra uppskrifta, sem hafa gengið vel í fólk. Ostbökun og ostasósur eru mest notaður, til dæmis gráðostur. Minna en í gamla daga er um sjaldgæfar tegundir fiska og meira um vinsælan fisk, sem flestir þekkja og vilja.

Jónas Kristjánsson

DV