**
Fiskibitastaður
Þótt gufusoðin rauðspretta dagsins sé veidd upp úr hitakassa í Fylgifiskum við Suðurlandsbraut, var hún fersk, hæfilega elduð og bragðgóð, kostaði ekki nema 850 krónur, sem er lágt verð, og 1050 krónur með súpu dagsins.
Einnig er hægt að fá séreldaða ýmsa tilbúna fiskrétti, sem sjá má í borðinu, 25-30 talsins, kryddaða á ýmsa á vegu, fyrir 1550 krónur. Það er sennilega bezti kosturinn í stöðunni og gildir auk þess fram eftir degi. Kaffi er innifalið í öllum þessum tölum.
Fylgifiskar hafa fetað í fótspor sumra bakaría, sem hafa nokkur borð og stóla í afgreiðslunni. Þeir eru fiskbúð, sem hefur stigið eitt skref í átt til skyndibitastaðar eða fiskibitastaðar og gerir það að sumu leyti vel, en leggur enga áherzlu á þessa viðbótarþjónustu, sem er aðallega til að fá matarlykt í húsið.
Litlu hýðiskartöflurnar með rauðsprettunni voru þó ofeldaðar, hvítu hrísgrjónin hlutlaus og hrásalatið allt of mikið jóðlandi í ediksósu. Sósan var hefðbundin hnetusósa ágæt.
Heldur lakari, en eigi að síður frambærileg var pönnusteikt rauðspretta dagsins, sennilega búin að vera heldur lengur í hitakassanum. Að þessu sinni voru kartöflurnar ekki ofsoðnar, en kaldar og grænmetissósan var í miklu betra jafnvægi. Súpa dagsins var þá kóríander-súpa með fiskbitum, ágætis súpa.
Þetta er stór og kuldalegur staður með máluðu steingólfi, hvítum veggjum, mikilli lofthæð og víðu rými, minnir á fiskvinnslustöð án véla og flísa. Á miðju gólfi er mikill glerskenkur með öllum sérréttunum. Í kringum hann er mikið pláss, sem þætti vera stórt dansgólf á skemmtistað. Úti við glugga eru nokkur matarborð fyrir viðskiptavini, sem ekki vilja taka með sér heim.
Hér og þar eru skápar með ýmissi vöru á boðstólum, allt frá matreiðslubókum yfir í matarstell, þar á meðal ýmsar lífrænt ræktaðar matvörur í glösum og dósum, svo sem edik, sósur og kaffi.
Jónas Kristjánsson
DV