Humarhúsið

Veitingar

*****
Kræklingur og humar

Humarhúsið er eitt þriggja beztu veitingahúsa landsins. Þetta er gamalflottur staður með fínni matreiðslu á fiski og frábærum humri grilluðum, með hvítlaukssmjöri og stöngum af kexi og grænmeti, kjörinn til að sýna útlendingum, að hér sé siðmenning. Ef við fáum okkur í forrrétt ferskan íslenzkan krækling í skelinni úr Hrísey, er stemmningin fullkomin, toppurinn á tilverunni

Ameríska konan á næsta borði kunni þó ekki gott að meta, sendi humarinn tvisvar fram til að fá hann meira eldaðan og gafst ekki upp fyrr en hann kom brenndur og seigur inn á borð. Sagt er, að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Franskur staður með Michelin-stjörnu hefði samt neitað að eyðileggja humarinn og vísað frúnni á McDonalds. Frakkar láta ekki spilla sinni siðmenningu.

Dýrt er að borða í Humarhúsinu, næstdýrast á landinu. Kræklingurinn kostar 1650 krónur sem forréttur og 500 gr af stórum humri kosta 5550 krónur. Meðalverð aðalrétta er 3700 krónur og þriggja rétta máltíða 6700 krónur. Ég hygg að einungis Vox á Nordica sé dýrari veitingastaður. Úrvalsstaðir á borð við Holtið, við Tjörnina og Sjávarkjallarann eru nokkru ódýrari.

Humarhúsið er ekki nýklassískt í þeim skilningi, að verið sé að dedúa við matinn í eldhúsinu fram eftir öllum degi. Eflaust má kalla það góða nýklassísk að hafa vandaða þjónustu og tauþurrkur í hádeginu. En borðdúka vantar alveg. Frekar er staðurinn nýfranskur vegna snöggrar matreiðslu. Finna má þó nýklassíska þætti í hliðaratriðum á borð við kartöflustöppu undir þremur fiskréttum.

Þetta voru vel útvatnaður saltfiskur með kirsuberjatómötum, lime og vanillu; pönnusteiktur þorskur með kræklingi og pönnusteikt rauðspretta með humar. Í öllum tilvikum var fiskurinn ferskur og hæfilega lítið eldaður, rann á tungunni. Ég skildi hins vegar ekki kalda kartöflustöppu, sem jafnan leyndist undir fiskinum. Ekki heldur, að eldislax skuli vera boðinn á veiðitímanum.

Fleira gott má fá í Humarhúsinu. ég minnist fennel-, kúmen- og túrmerik-grafins lambahryggs í þunnum sneiðum á löngum og mjóum diski, með ávaxtasultu öðru megin og fetasmjöri hinum megin. Ég minnist líka magnaðrar fiskisúpu dagsins með laxabitum. Ennfremur sérstæðs og skemmtilegs þríeykis með humarhölum, uxahalatægjum og stökkri parma-skinku.

Jónas Kristjánsson

DV