Ráð við hryðjuverkum

Greinar

Vesturlönd geta bætt öryggi sitt og heimsins, dregið mátt úr hryðjuverkaöflum og eflt arðbæra kaupsýslu um allan heim með því að beita efnahagsþrýstingi sem ein heild. Það gerist með því að veita fríverzlun og annan forgang þeim ríkjum, sem veita þjóðum sínum þjóðskipulag, sem minnir á Vesturlönd.

Öll ríki eru nú vegin og metin á ýmsa mælikvarða. Merkastur er gegnsæisstaðallinn, sem Transparency gefur út og snýst um, hvort hægt sé að sjá, hvernig ríkisvaldið virkar. Fleiri staðlar meta sameiginlega ýmis gildi, svo sem málfrelsi, fundafrelsi, efnahagsfrelsi, menntun, öryggi og heilbrigði.

Vesturlönd geta komið sér saman um að velja sér vandaða mælikvarða af slíku tagi til að meta, hvort ríki í þriðja heiminum séu hæf til forgangs að viðskiptum við auðríkin, sem geta borgað. Þannig verður á mörkum Vesturlanda hægt að rækta ríki, sem vilja breiða út áhrif vestrænna leikreglna.

Þetta er ekki hægt um þessar mundir, því að Bandaríkin hafa vikið á braut ofbeldis og hernaðar, þar sem sérvaldir drullusokkar í stétt einræðisherra skipa hóp viljugra ríkja í baráttu gegn öðrum sérvöldum drullusokkum í stétt einræðisherra. Stríðið gegn Írak er gott dæmi um þetta rugl.

Bandaríkin koma um þessar mundir ekki að gagni í baráttunni gegn hryðjuverkum og ofbeldi í heiminum, af því að þau hafa sjálf forustu í hryðjuverkum og ofbeldi og rækta hatur á Vesturlöndum um allan þriðja heiminn. Atlantshafsbandalagið kemur ekki heldur að gagni sem leppur Bandaríkjastjórnar.

Sameinuðu þjóðirnar eru utan hugmyndarinnar um að nota vestræna mælikvarða á aðgengi þriðja heimsins að vestrænum markaði. Í fyrsta lagi er hópur smáríkja í bandalaginu aðeins handbendi Bandaríkjanna, þar á meðal Ísland. Í öðru lagi eru allir einræðisherrar heimsins aðilar að samtökunum.

Glæpalýður hefur völdin í Sameinuðu þjóðunum. Í mikilvægum nefndum og stofnunum þeirra, svo sem í Mannréttindastofnun, berjast fulltrúar leppríkja Bandaríkjanna og fulltrúar einræðisherra um völdin, en minna heyrast raddir evrópskra ríkja, sem vilja fylgja stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Evrópusambandið er sterkasta efnahagsveldi heimsins um þessar mundir. Það er núna eini aðilinn, sem getur beitt efnahagsvopni fríverzlunar og annarra fríðinda til að laða þriðja heiminn til fylgis við opið stjórnarfar og stuðnings við stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meðan Bandaríkin eru Marz, sem magnar vandann með ofbeldi hefur Evrópusambandið sem Venus og Plútó færi á að minnka vandann með því að setja beitu á krókinn, gera staðla vestrænna gilda að forsendu fyrir viðskiptum þriðja heimsins við ríka Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV