Þrengra umhverfi

Greinar

Auðvelt er að meta, hvort tillögur stjórnskipaðrar nefndar um breytt viðskiptaumhverfi séu góðar eða ekki. Matið fer eftir, að hve miklu leyti tillögurnar fylgja evrópskum reglum. Þar hefur verið fjallað rækilega um málið frá ýmsum hliðum, en hér heima óttast menn ofbeldishneigð stjórnvalda.

Að mestu leyti fylgja tillögurnar evrópskum leikreglum og eru að því leyti góðar. Að nokkru leyti víkja þær frá þeim, einkum til að þrengja viðskiptaumhverfið á Íslandi umfram Evrópu. Að því leyti eru þær til þess fallnar að hrekja fyrirtæki úr landi og koma því ekki að tilætluðum notum.

Þórdís J. Sigurðardóttir skilaði séráliti í nefndinni, þar sem hún nefnir slík atriði í tillögunum. Skynsamlegt er fyrir Alþingi að taka mark á athugasemdum Þórdísar, þegar það tekur málið fyrir, og tryggja, að ekki sé hér á landi flanað út í breytingar, sem bregða fæti fyrir viðskipti.

Hugmynd nefndarinnar um aukin ríkisafskipti af atvinnulífinu eru ekki í takt við tímann, ekki frekar en tillögur annarrar nefndar um aukin afskipti ríkisins af atvinnurekstri í fjölmiðlun. Yfirleitt er ríkjandi sú stefna á Vesturlöndum að fara varlega í ríkisafskipti. Stalín er löngu dauður.

Sérkennileg er hugmyndin um, að stjórnarformenn séu ekki starfandi í fyrirtækinu. Hvað er unnið við, að Kári Stefánsson sé ekki stjórnarformaður deCode, Sigurður Einarsson ekki stjórnarformaður KB-banka, Ólafur Ólafsson ekki stjórnarformaður Samskipa? Eru þetta ekki hornsteinar?

Skortur á samkeppni í atvinnulífi Íslendinga kemur helzt niður á almenningi í flutningum og tryggingum, benzíni og lyfjum. Til að verja almenning gegn hringamyndun og öðru ofríki einkafyrirtækja duga ekki tillögur nefndarinnar. Það skiptir engu, hvort stjórnarmenn fáokunar séu launamenn.

Miklu mikilvægara er að laga aðstæður hér á landi fyrir útibú erlendra fyrirtækja til að taka upp samkeppni við innlenda fáokun. Ríkisvaldið þarf að búa í haginn fyrir erlenda banka, erlendar tryggingar, erlenda flutninga og erlenda lyfjasmásölu til að auka samkeppni í landinu.

Morgunblaðinu og fráfarandi forsætisráðherra hefur lengi verið umhugað um þrengra viðskiptaumhverfi hér á landi, sumpart til að hafa meiri hemil á KB-banka, sem hefur farið eigin leiðir og núna síðast opnað möguleika almennings á hagstæðari kjörum við að fjármagna þakið yfir höfði sér.

Sem betur fer snerust tillögurnar ekki um þetta, þegar þær litu dagsins ljós. En eigi að síður er nauðsynlegt að sníða af þeim agnúa, sem þrengja viðskiptaumhverfið umfram Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV