Ríkið selji dópið

Greinar

Lögleg yfirvöld víða í Bandaríkjunum misstu völdin í hendur ítalskra bófaflokka á þriðja áratug síðustu aldar vegna banns við sölu á áfengi, sem stóð í þrettán ár. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum síðar, að yfirvöldum tókst að ná völdum af mafíunni, sem hafði blómstrað í skjóli bannsins.

Sama sagan er aftur uppi á teningnum á vesturlöndum. Þá var það áfengið, en nú eru það fíkniefnin. Bann við sölu þeirra hefur rutt bófaflokkum til rúms. Þeir keppa við lögleg yfirvöld um sálir unga fólksins og hafa náð þeim árangri, að menn þora ekki fyrir sitt litla líf að segja til þeirra.

Líta verður á birtingu íslenzks lista yfir meinta starfsmenn undirheima fíkniefna sem eins konar neyðaróp manns, er sér, að yfirvöld eru að missa völd í hendur fíkniefnakónga, sem ánetja börn hans. Flest bendir raunar til, að við séum á sömu afvegaleið og Bandaríkin á þriðja áratug síðustu aldar.

Afnám banns við áfengi breytti litlu um áfengisvandann. En það gaf löglegum yfirvöldum færi á að losa borgarana undan áþján áfengiskónga. Afnám banns við fíkniefnum mundi breyta litlu um fíkniefnavandann. En það mundi gefa löglegum yfirvöldum færi á losa borgarana undan fíkniefnakóngum.

Bezt er að hefja ríkisrekstur fíkniefnasölu á sama hátt og ríkisrekstur áfengissölu. Þá tekur ríkið brauðið af kóngum fíkniefnaheimsins og tryggir gæði efnanna. Mestu máli skiptir þó, að slíkt mundi losa fíkniefnanotendur undan ofurvaldi neðanjarðarhreyfingar, sem grefur undan ríkinu.

Ef fíklarnir geta keypt efnin hjá ríkinu, fellur niður milljarða hagkerfi, sem snýst um innflutning, heilsölu og smásölu fíkniefna, innheimtu skulda og varðveizlu þessa neðanjarðarhagkerfis gegn eftirliti ríkisins. Það er til mikils að vinna og lausnin felst í ríkisrekstri fíkniefna.

Úr því að ríkið selur hættulegasta fíkniefnið, það er að segja áfengi, og hefur af því stórfelldar tekjur, ætti ekki að vera neitt siðferðilega athugavert við, að það taki líka yfir sölu fíkniefna. Hægri sinnaða hagfræðiritið Economist hefur lagt til, að fíkniefni verði tekin frá undirheimunum.

Fyrr eða síðar verður þjóðfélagið að gera harðari uppreisn gegn undirheimunum en að birta nokkur nöfn á vefnum. Eina virka aðferðin gegn barónum undirheimanna er að taka af þeim lifibrauðið með því að lögleiða fíkniefni og flytja sölu þeirra af götunum inn í lyfjabúðir eða áfengisverzlanir.

Svarti markaðurinn grefur undan þjóðskipulaginu jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum. Undanfarið hefur hratt hallað undan fæti. Kominn er tími til, að ríkið taki í taumana.

Jónas Kristjánsson

DV