Galileo

Veitingar

*
Eldhúsið er úti að aka

Einhvern tíma las ég, að meta megi ítalskt eldhús eftir vandvirkni í 20 mínútna eldun á risotto, krydduðum hrísgrjónagraut, sem er þjóðarréttur Norður-Ítala. Á Galileo á horni Hafnarstrætis og Vesturgötu er risotto eldað löngu áður og síðan hitað upp, þegar það er pantað. Þannig varð það að ólystugri klessu, sem ég kláraði ekki.

Verri var pönnusteikta smálúðan, greinilega frystivara, sem síðan var aðeins elduð á yfirborðinu, en var að öðru leyti hrá í gegn og þar af leiðandi óæt. Ekki stafaði þetta af önnum í eldhúsi, því að ég var eini gesturinn í hádeginu. Erfitt er að taka veitingahús alvarlega, þegar eldhúsið er svona langt úti að aka.

Galileo kom fyrir þremur-fjórum árum inn í milliverðflokk íslenzkra veitingahúsa, þar sem eru staðir á borð við Þrjá frakka, Caruso, Tvo fiska, Apótekið og Óperu. Hann byrjaði vel, en hefur drabbast, einkum í eldhúsinu. Þjónustan er þó lipur sem fyrr. Munnþurrkur eru ekki lengur úr taui. Espresso kaffi var í tvígang alltof bragðdauft.

Bezti réttur staðarins var ofnbakaður ostur, sagður geitaostur, og döðlur, vafið inn í parmaskinku með klettasalati. Döðlurnar gáfu réttinum sérstætt og skemmtilegt bragð. Hlutlausari voru grilluð eggaldin með ferskum mozzarella-osti, hlaðin upp í turn og borin fram með tómötum, basil, balsamico-ediki og klettasalati.

Pönnusteiktur steinbítur dagsins með rjómasveppum og tagliatelle pasta var milt kryddaður og hæfilega eldaður. Sjávarréttarisotto var misheppnað, með mörgum tegundum af sjávarfangi, skelfiski, hörpudiski, humar og rækjum. Tiramisu var ekki merkilegur eftirréttur, en skrautlega fram borinn með blæjuberi.

Bezti kosturinn við Galileo eru húsakynnin sjálf, gamalt hús með berum burðarvirkjum fortíðarinnar, innréttað á nútímavísu með þægilegum tréstólum og járnborðum með borðplötum úr marmarasalla undir snyrtilegum og stílhreinum borðbúnaði.

Jónas Kristjánsson

DV