Ofstækisþjóð

Greinar

Hálf bandaríska þjóðin er í þann mund að kjósa George W. Bush sem forseta í annað fjögurra ára kjörtímabil. Hún ógnar þar með helztu forsendum friðsællar framtíðar mannkyns á jörðinni, ekki bara í fjögur ár, heldur langt fram á veg. Hún leiðir okkur inn á braut ótta, haturs og grimmdar.

Hálf bandaríska þjóðin er stríðsóð. Hún lætur sig engu varða, þótt forsendur Íraksstríðs hafi reynzt vera falskar eða falsaðar. Hún lítur á sig sem fórnardýr og telur hernum heimilt að stunda hryðjuverk á saklausu fólki í öðrum löndum, enda lítur hún á útlendinga almennt sem skepnur.

Hálf bandaríska þjóðin heldur, að Saddam Hussein hafi staðið að 11. september hryðjuverkinu, þótt nýjar staðreyndir segi annað. Þær koma henni yfirleitt ekki við. Hún tekur trú fram yfir staðreyndir. Hálf bandaríska þjóðin telur, að guð stjórni Bush og að hann geti því ekki gert nein mistök.

Hálf bandaríska þjóðin er haldin trúarofstæki, alin upp í trúarsöfnuðum endurfæddra, þar sem Bush hætti fertugur að drekka viskí og fór að telja sér trú um, að guð talaði við sig. Hann og hálf þjóðin telja, að Bush sé eins konar messías, sem guð hafi sent til bjargar guðs eigin þjóð.

Hálf bandaríska þjóðin telur loftárásir á saklaust fólk ekki vera hryðjuverk, heldur réttláta hefnd guðs yfir múslímum og öðru vondu fólki. Þessu fólki má misþyrma á ýmsa vegu, þvert gegn alþjóðlegum sáttmálum, enda telur bandaríska þjóðin ekki, að alþjóðlegir sáttmálar gildi um guðs eigið land.

Hálf bandaríska þjóðin telur í lagi að stunda óheftar árásir á vistkerfi heimsins. Hún vill ekki vera með í Kyoto-bókun umheimsins. Hún er svo skammtímasinnuð, að hún tekur hagvöxt líðandi stundar fram yfir framtíðarhag. Aðgerðir þessarar ofstækisfullu þjóðar hindra gagnið af aðgerðum allra hinna.

Hálf bandaríska þjóðin telur Evrópu svo fáránlega, að annar forsetaframbjóðandinn verður árangurslaust að reyna að halda því leyndu, að hann kunni að tala frönsku. Hálf bandaríska þjóðin telur jafnvel Englendinga vera undirþjóð linkindar gagnvart hinum illu öflum heimsins, sem þurfi að tortíma.

Hálf bandaríska þjóðin er svo andvíg útlöndum yfirleitt, að hún telur fráleitt, að forsetinn hafi eitthvert samráð við útlendinga, ekki einu sinni Evrópumenn. Allir útlendingar eiga að sitja og standa eins og Bandaríkjaforseti skipar fyrir, annars eru þeir taldir óvinir guðs eigin þjóðar.

Vandinn er ekki bara George W. Bush, heldur hálf bandaríska þjóðin, sem árið 2004 er orðin drukkin af valdi á sama hátt og hálf þýzka þjóðin var orðin drukkin af valdi árið 1939.

Jónas Kristjánsson

DV