Íslenzkir hermenn

Greinar

Erlendar fréttastofur segja, að íslenzkir hermenn hafi særzt í sjálfsmorðsárás í Kabúl í Afganistan. Utanríkisráðuneytið íslenzka segir þetta hafa verið friðargæzluliða. Það er orð, sem Atlantshafsbandalagið notar til að gera lítið úr aðild þess að vopnuðu hernámi Bandaríkjanna á fjarlægu landi.

Verkaskipting hernámsins felst í, að hermenn bandalagsins þora ekki út fyrir höfuðborgina Kabúl. Bandaríkjamenn stunda hins vegar stríðsglæpi víðs vegar um Afganistan með því að varpa sprengjum úr lofti að venjulegu fólki í von um, að sprengjurnar hitti forsprakka Talíbana eða Osama bin Laden.

Íbúar höfuðborgarinnar hafa ekki beðið um þetta hernám og hafa svipuð viðhorf og hernumið fólk hefur annars staðar.

Íslenzku hermennirnir mega raunar ekki koma í sum hverfin, af því að Atlantshafsbandalagið er svo hatað, að sumir eru fúsir til að fórna lífi sínu í sjálfsmorðsárásum á það.

Afganistan kemur Evrópu og þar á meðal Íslandi lítið við. Helzta breytingin í kjölfar hernámsins er, að framleiðsla fíkniefna hefur margfaldazt, svo að þau flæða yfir Evrópu í gífurlegu magni. Í raun er það hlutverk íslenzkra hermanna að stýra flugvelli, þaðan sem fíkniefni flæða til Íslands.

Halldór Ásgrímsson stríðsmálaráðherra hefur aldrei þurft að fara sjálfur í stríð, ekki frekar en George W. Bush, sem kom sér undan Víetnam, þegar hann var á herskyldualdri. Slíkar skrifborðs-stríðshetjur eiga auðvelt með að senda unga menn í hættuleg stríð til að gæta annarlegra fjármálahagsmuna.

Halldór og Davíð Oddsson spurðu ekki þig eða mig um leyfi til að senda íslenzka skrifstofumenn í stríð. Þeir ákváðu það sín í milli og bera fulla ábyrgð á afleiðingunum. Þessi aðild hefur ekki bætt ástandið í Afganistan, sem utan við Kabúl er verra en það var á valdaskeiði illræmdra Talíbana.

Sjálfsmorðsárás á Íslendinga minnir okkur á, að afskipti okkar af þessu fátæka og fjarlæga landi er ekkert grín. Við erum að taka þátt í undirgefinni þjónustu hernaðarbandalags við sérbandaríska hagsmuni, sem er þegar orðin okkur til vansæmdar og á eftir að verða okkur til enn meiri skammar.

Við eigum ekki að taka þátt í að opna flóðgáttir fíkniefna frá Afganistan til Evrópu. Við eigum ekki að taka þátt í að kristna eða siða á annan hátt fjarlægar þjóðir, sem hafa allt önnur lífsviðhorf. Við eigum ekki að taka þátt í verkum, sem bera krossmark haturs á trúarbrögðum annarra.

Aðild Íslendinga að hernámi, sem leiðir til fjöldamorða á venjulegu fólki og aukins fíkniefndavanda í Evrópu og Íslandi felur í sér stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Jónas Kristjánsson

DV