Keppni deyr alltaf

Greinar

Tölvupóstur stjórnenda olíufélaganna um samráð þeirra gegn viðskiptamönnum segir allt, sem segja þarf um hugarfarið á þeim bæjum. Brotaviljinn var eindreginn, nauðsynlegt þótti að leggja meiri áherzlu á “framlegð” en samkeppni og það sem athyglisverðast er, viðskiptamenn voru taldir vera “fífl”.

Umsjónarmenn samráðanna hafa viðurkennt brot sitt og ákveðnar hafa verið sektir, sem eru langt innan við þær upphæðir, er olíufélögin höfðu af fólki, fyrirtækjum og stofnununum. Þegar upp er staðið, eiga þau að halda eftir töluverðum hagnaði af svindlinu, sem er merkileg staðreynd.

Líklega verður áfrýjað til dómstóla, enda telja olíufélögin, að málið sé fyrnt. Sé svo, er tvennu um að kenna. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin skorið Samkeppnisstofnun niður við nögl í framlögum, væntanlega til að draga úr rannsóknarhraða svo að gæludýr kolkrabba og smokkfisks slyppu fyrir horn.

Í öðru lagi hefur Samkeppnisstofnun þá ekki verið með lögfræðina á hreinu og hefði átt að takmarka umfang rannsóknarinnar nægilega til þess að vinnu yrði lokið fyrir tilsettan tíma. Ekki er nóg að vísa á fjárveitingar ríkisins, ætlast er til, að embættismenn kunni á dagatal.

Allt er mál þetta frábært skólabókardæmi um örlög samkeppni á frjálsum markaði. Samkeppni leiðir til fækkunar í hverri grein. Þegar ráðandi fyrirtæki eru orðin þrjú, kemur fyrr eða síðar að því, að ráðamenn þeirra fara að bera saman bækur, hvort sem þeir gera það í Öskjuhlíð eða í tölvupósti.

Markaðshyggjumenn hafa aldrei getað skýrt, hvað muni gerast, þegar samkeppni hefur leitt til fákeppni og er í þann mund að breytast í fáokun. Engin leið er að halda fram, að hugarfar forstjóra og millistjórnenda í öðrum greinum fáokunar geti lengi verið hreinna en í olíu og benzíni.

Um tíma getur verið góð samkeppni, þótt fá fyrirtæki keppi, eins og nú keppa tvö fyrirtæki um farþega í millilandaflugi. Fyrr eða síðar leiðir slík samkeppni samt til þreytu annars aðilans eða beggja, sem leiðir til uppgjafar eða uppkaupa eða samstarfs, sem endar svo með samráði og einokun.

Samfélagið getur dregið mikilvæga lexíu af þessu. Það þarf að styðja til valda stjórnmálamenn, sem hafa að markmiði að búa svo um hnútana, að auðvelt sé að stofna og flytja inn fyrirtæki til að taka upp samkeppni við fáokunina, í flugi, í tryggingum, í smásölu, í bönkum, í flutningum, í benzíni.

Auðvitað verðum við að hafa miklu öflugra eftirlit og meiri sektir á þessu sviði, en áhrifameira er að búa til umhverfi, þar sem ung og innflutt fyrirtæki hafa svigrúm til að rísa.

Jónas Kristjánsson

DV