Borgarstjórinn hættir

Greinar

Borgarstjórinn hættir

Borgarstjórinn hefur tekið til varna á sjónvarpsstöðvum og reynt að gera lítið úr hlutdeild sinni í stórfelldu samsæri olíurisanna gegn þjóðinni, fyrirtækjum hennar og stofnunum. Hann kemur vel fyrir, en getur ekki talað framhjá þeirri staðreynd, að hann var sjálfur á bólakafi í þessu samsæri.

Borgarstjórinn hefur ekki gefið Reykjavíkurlistanum réttar upplýsingar á sínum tíma, þegar málið var tekið þar fyrst fyrir. Eins og í sjónvarpsviðtölum fimmtudagsins hefur hann skautað yfir óþægilegu kaflana um aðild sína, enda virðist hann ekki enn gera sér grein fyrir pólitískri stærð málsins.

Þótt hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir dómstólum, verður hann gerður ábyrgur fyrir dómstóli götunnar, það er að segja kjósenda, sem vilja, að fulltrúar sínir séu hafnir yfir þær gerðir, sem lýst er í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Gerðar eru meiri kröfur til stjórnmálamanna en til markaðsstjóra.

Kjósendur eru undarlegt fyrirbæri. Þeir láta sér sæma að halda áfram að kaupa benzín hjá samsærisfélögunum, jafnvel þótt komið sé til sögunnar olíufélag, sem er utan hópsins og hefur keyrt niður benzínverð. Þetta er alveg sama viðhorfið og þegar reynt var að lækka verð á bílatryggingum og flugi.

Fólk er fífl, eins og einn samsærismanna benti á. En það á eingöngu við um viðskipti. Kjósendur vilja stunda viðskipti, þar sem þeir eru kvaldastir, hjá olíufélagi, flugfélagi og tryggingafélagi sínu. En ekki má rugla saman dauflegum viðbrögðum fólks á markaði og viðbrögðum þeirra í pólitík.

Þegar kemur að stjórnmálamönnum, vilja kjósendur, að þeir hafi sæmilega hreinan skjöld. Þeir sjá ekki fyrir sér, að samsærismaður gegn almenningi geti lengi verið borgarstjóri. Þótt kjósendur vilji ekki færa til viðskipti sín, eru þeir ekki tilbúnir til að fyrirgefa samráðin í kjörklefanum.

Reykjavíkurlistinn mun í næstu kosningum hafa nóg að gera við að útskýra mistök sín í skipulagsmálum, svo sem aðgerðarleysið á stórslysahorni Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hann hefur ekki ráð á að styðja við bakið á borgarstjóra, sem er greinilega orðinn að pólitískri byrði.

Reykjavíkurlistinn getur ekki fylkt sér að baki borgarstjóra af þessu tagi, þótt hann sé þægilegur maður og allur af vilja gerður til að vinna vel. Sumir af ráðamönnum listans kunna að þurfa tíma til að láta umfang málsins síast inn, en óhjákvæmilega gefast þeir að lokum upp á eitraða peðinu.

Fyrr eða síðar áttar annað hvort Reykjavíkurlistinn eða borgarstjórinn sig á því, að sameiginlegt dæmi þeirra gengur ekki lengur upp. Bezt er, að borgarstjórinn verði fyrri til.

Jónas Kristjánsson

DV