Italia

Veitingar

***
Íslenzk Ítalía

Ítalía við neðanverðan Laugaveg sló í gegn á fyrsta degi og hefur síðan verið fullsetið gestum á kvöldin, bezt heppnaða veitingaghús landsins, sannur hornsteinn íslenzkrar veitingamennsku.

Enda er það íslenzkasta veitingahús landsins. Þar sitja gestir afar þröngt með brött stólbök í bakinu, glerplötu borðsins í fanginu og þunna pappírsservéttu í beltinu, allt að íslenzkum sið, snæðandi Íslands farsælu þjóðarrétti, pítsu eða pöstu á 1700 krónur eða örbylgjuhitaðan fisk með bakaðri kartöflu. Einhvern tíma verður komið með stórvirk tæki og allt úthaldið flutt upp í Árbæjarsafn.

Það ítalska við staðinn er fremur létt og góð matreiðsla, sem leggur þó meiri áherzlu á kryddbragð en eðlisbragð; svo og umhyggja ítalskra eigenda um gesti sína. Hvort tveggja er mun betra en tíðkast á öðrum veitingahúsum borgarinnar, sem segjast vera ítalskrar ættar, en eru það auðvitað alls ekki. Á sumum sviðum er valið það betra úr báðum heimum, gæðabrauð að íslenzkum hætti, ekkert crostini, og viðbit að ítölskum hætti, ekkert smjör.

Smálúðan var ekki ofsteikt, heldur rétt rúmlega hæfilega; mikið krydduð sveppum og kryddjurtum; fljótandi að íslenzkum hætti í mikilli sósu, hvítvínsrjómasósu, sem var léttari og betri en ostasósurnar á Þremur frökkum. Rúmlega hæfilega eldaður saltfiskur var á kafi í mikilli tómat- og olífusósu. Með öllum fiski fylgdi einkennistákn íslenzkrar matreiðslu, bökuð kartafla. Hvítar væru betri á þessum árstíma. Og hvað með feneyskt risotto, mætti ekki prófa það?

Fiskisúpan var þykk tómatsúpa með rækjum og örlitlum keim af fiskbragði. Blaðlaukssúpan var þykk hveitisúpa að hefðbundnum íslenzkum hætti. Ferska salatið var gott og fjölbreytt ítalskt salat með íslenzkum fetaosti, smátómötum, klettasalati og olífum ofan á hefðbundara jöklasalati, rauðkáli og gulrótaraspi. Kræklingurinn var borinn fram í skelinni ofan á chilikryddaðri tómatsósu, sem yfirgnæfði kræklingabragðið.

Ef borðaður er hefðbundinn matur á Ítalíu, kostar þríréttað 4800 krónur, sem er nálægt miðjuverði veitingabransans í Reykjavík, svipað og önnur Ítalíuhús og Þrír frakkar. Sami seðill og enginn afsláttur af verði er í hádeginu og þá er Ítalía dýrari en flest önnur hús í miðborginni.

Hér vantar ekkert nema eftirréttinn tiramisu til að gera staðinn fullkomlega íslenzkan að upplagi. Eftirréttir eru fínir, á kafi í þeyttum rjóma, einnig að íslenzkri hefð. Mér fannst athyglisvert og ánægjulegt, hversu létt í maga perutertan var, gott dæmi um, að ítölsk áhrif eru í matreiðslunni.

Espresso var fínt, aðeins beizkt að feneyskum hætti, en 25% of þunnt að íslenzkum hætti.

Jónas Kristjánsson

DV