Huldumaður í olíunni

Greinar

Millistjórar í samráðum olíufélaganna segjast hafa dottið inn í andrúmsloft, sem var þar á þeim tíma, og ekki áttað sig á, að það væri mafíuloft. Höfuðpaurarnir sjálfir segja, að mafíuloftið hafi verið leifar frá fyrri tíma, þegar ríkið stjórnaði olíufélögunum, til dæmis með verðlagsskorðum.

Þetta firrir engan persónulegri ábyrgð á samsæri gegn þjóðinni, en vísar okkur veginn til forsendunnar að baki glæpanna. Olíufélögin voru eins og tryggingafélögin og flugfélögin og einkum bankarnir hluti af valdakerfi tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Það sprengir ímyndunaraflið að reyna að telja sér trú um, að forstjórar olíufélaganna hafi verið verri en starfsbræður þeirra hjá tryggingafélögunum, flugfélögunum og bönkunum og öllum atvinnugreinum, þar sem tvö eða þrjú hálfpólitísk fyrirtæki áttu meginþorra markaðarins í skjóli stjórnmála.

Einu sinni var hér tími helmingaskipta. Þá átti kolkrabbinn 60% af atvinnulífinu og smokkfiskurinn 40%. Þessi skipan komst á, þegar ríkið skipulagði atvinnulífið og skammtaði því tækifæri með verðlagsákvæðum, fjárhagsráði, margfaldri gengisskráningu og öðru því, sem einu sinni hét Eysteinska.

Kolkrabbinn og smokkfiskurinn blómstruðu í skjóli tveggja stjórnmálaflokka og studdu þá til valda með fjármunum og aðstöðu. Þetta vissu allir í þá daga, en ekkert var gert með það, rétt eins og dómstólar munu komast að raun um, að enginn olíuforstjóri skuli lenda í fangelsi fyrir samráðin.

Það er söguleg tilviljun, að Samkeppnisstofnun tók olíuna í gegn. Ef til vill fékk forstjórinn höfuðhögg og fór að trúa lögum og rétti. Þegar pólitíska tvíeykið komst að raun um, hvert hann var að fara, var dregið úr fé stofnunarinnar og minnkuð starfsgeta hennar, meðal annars til að fyrna málið.

Svipuð rannsókn verður því ekki gerð á tryggingafélögunum, flugfélaginu og allra sízt á bönkunum, þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sátu og ákváðu, hverjir skyldu fá peninga og hverjir frystir úti. Ástæðan er auðvitað huldumaðurinn að baki stjórnmálaflokkanna tveggja.

Huldumaðurinn er Hinn íslenzki kjósandi. Hann hefur áratugum saman vitað, hvernig þjóðfélaginu og atvinnulífinu var stjórnað og lét sig það engu skipta. Hann var og er sáttur. Hann hefur stutt helmingaskiptafélagið til valda og gerir það aftur, þegar kemur að næstu kosningum og þarnæstu.

Þegar leitað er dólgsins, sem ræktaði mafíuloftið í olíunni og öðrum lykilgreinum þjóðfélagsins, verður Hinn íslenzki kjósandi sá aðili, sem helzt ætti að setja á Litla-Hraun.

Jónas Kristjánsson

DV