Apótekið

Veitingar

****
Sitt lítið af hverju

Japanskir smáréttir eru dæmi um cuisine ethnologique á Apótekinu, skyr með jarðarberjum er dæmi um cuisine touristique, grilluð rauðspretta með japanskri basilíku er dæmi um cuisine fusion, saltfiskur með kardimommusósu, kartöflum og svínahöm er dæmi um cuisine neoclassique og steiktur lax með fenniku er dæmi um cuisine nouvelle. Apótekið hefur sitt lítið af hverju, hér vantar bara cuisine terroir.

Húsakynnin eru hin beztu hér á landi, glæsilegur salur og fagurlega innréttaður mitt á milli alþingishússins og forsætisráðuneytisins. Samt er sorglegt, að einstæðar innréttingar Reykjavíkurapóteks hafa verið rifnar, þar sem nú er bar og kaffistofa. Húsbúnaður titrar undir of þungri undiröldu tónlistar fyrir unga fólkið, er þó sækir ekki staðinn, sem er minna inni en hann var fyrst, jafnvel úti.

Þjónustan hefur batnað, enda er þetta einn af dýru matstöðunum í bænum, kostar 6000 krónur þríréttað á kvöldin, og aðsóknin leyfir ekki leikhússtæla við gesti. Betra er að koma í hádeginu og borga 2000 krónur tvíréttað, en fá þó hvíta tauþurrku. Þá er þetta fínn staður til að heimsækja, því að tilbreytni í matseðli er spennandi og matreiðsla vönduð hjá Sigurði Ólafssyni.

Fagurlega uppsett og afar lystugt salat með risarækjum, spergli og japönskum blómasveppum var einn bezti rétturinn. Súpur voru fínar, einkum gulrótarsúpa með broddkúmenfroðu, sem mildaði gulrótina, en hefði mátt vera meiri. Á borðinu var fyrirtaks brauð með óvenjulega góðu olífumauki. Þjónar töluðu mikið saman og voru seinir að bæta í vatnsglös. Við slíkar aðstæður er betra að fá vatnskönnu á borð.

Fiskur var nokkuð góður, þótt uppsetning væri í skrautlegra lagi að nýklassískum hætti. Grilluð bleikja og keila lágu ofan á sneið af risastórri kartöflu og efst trónaði skreyting úr blaðsalati. Fiskurinn var heldur mikið eldaður, en flóði ekki í smjörsósu, sem var til hliðar í litlum mæli. Bleikjan hafði verið djúpsteikt eftir grillun, dálítið smart, en ekki til matgæðabóta.

Saltfiskur með kardimommusósu var fínlega eldaður, mildur og góður, borinn fram með kartöflustöppu og skemmtilegri ræmu af svínahöm. Lambahryggsneið var fínt elduð, borin fram með grillaðri kartöflublöndu, fenniku og þunnri og fínni hafursrótarsósu. Eftirréttir voru mest skorpubúðingar, crème brulèe og creme catalan, fremur léttir og þægilegir. Espresso var þunnt og bragðdauft.

Síðan þjónustan batnaði er Apótekið einn af fáum stöðum í miðborginni, sem ég get hugsað mér að heimsækja aftur, af því að það er fjölbreytt, ekki sokkið í skólagenginni nýklassík.

Jónas Kristjánsson

DV