Góðverkabisness

Greinar

Góðverk eru orðin mikil atvinnugrein, þar sem sérfróðir aðilar á ýmsum póstum, svo sem söngvarar og skipuleggjendur, svo og trúnaðarmenn minnimáttarhópa, taka saman höndum um að búa til viðburð, sem fær almenning til að leggja fram fé, er rennur í meira mæli til aðstandenda en til minnimáttarhópa.

Aðferðin varð fræg, þegar DV sagði um daginn frá fáránlegri 1,7 milljón króna greiðslu til eins söngvara og annarri óskýranlegri meðferð fjármuna í síðasta viðburði af þessu tagi. Ruddaleg framkoma söngvarans í fjölmiðlum hefur síðan bætt gráu ofan á svart, þannig að siðleysið er öllum ljóst.

Þar fór tvennt saman, óbeizlað dómgreindarleysi og óbeizluð frekja, svo sem landsmenn hafa getað lesið í dagblöðum og horft á í sjónvarpi, þar sem dónaskapur hans fór hamförum. Þar fengu menn innsýn í hugarfar, sem aðrir málsaðilar hafa reynt að leyna með silkimjúku tali og helgislepjusvip.

Rök málsaðila hafa verið einföld. Þeir segja efnislega: Við erum í góðverkum og haldið þið kjafti, sveitalubbar. Að baki liggur sú staðreynd, að skipuleggjandi atburðarins getur enga málefnalega grein gert fyrir fjárstreymi hans. Ljóst er þó, að minnihluti teknanna rann til minnimáttarhópsins.

Enginn skyni borinn maður trúir skipuleggjandanum, þegar hann setur upp helgislepjusvip og segist vera annálaður dýrlingur, sem menn eigi að treysta til góðra verka. Menn vilja bara skjölin á borðið, svo að ljóst verði, hvernig og hvert fjármunir runnu, hversu stórtæk græðgin var í raun.

Verstur er hluti trúnaðarmanna minnimáttarhópsins, sem bera blak af atvinnumönnum peningadæmisins samkvæmt spakmælinu um að tilgangurinn helgi meðalið og neita um leið að taka þátt í að upplýsa fjárstreymið. Þeir hafa því miður lent í skrítnum félagsskap fagmanna og vilja ekki viðurkenna það.

Erlendis hafa menn aldagamla reynslu af, að oft er ekki allt sem sýnist á góðverkamarkaði. Sögur Charles Dickens frá London og Túskildingsóperan sýna okkur ýmislegt í aðferðum fyrri alda og fyrri áratuga. Fyrr og síðar hafa fagmenn reynt að fela sig á bak við samúð við minnimáttarhópa.

Ætli menn geti ekki verið sammála um, að hér eftir muni almenningur fá að vita um, hvernig sé í peningapottinn búið, þegar ætlazt er til, að hann leggi fé af mörkum til góðra mála. Það dugir ekki til lengdar að fá fólk til að láta fé í ótilgreinda hít, þar sem atvinnumenn hrifsa mikinn hluta.

Samfélagið verður að viðurkenna, að sjónhverfingar eru hluti af nútímabisness, og átta sig á, að oft er ekki allt sem sýnist, jafnvel þveröfugt. Krafan um gegnsæi gildir hér.

Jónas Kristjánsson

DV