**
Rammíslenzkt sósueldhús
Madonna við Rauðarárstíg er full af gervimarmara og öðrum leikmunum úr frauðplasti, svo og smádóti að hætti ítalskra ferðastaða og hefur pöstur og pítsur í matinn. Samt býður hún ekki ítalska matreiðslu, heldur gamaldags íslenzka matreiðslu frá sósutímanum eins og önnur hús hér á landi, sem segjast vera ítölsk. Jafnvel vínin eru ekki ítölsk, heldur spönsk. En espresso-kaffið er loksins orðið ítalskt og gott og þjónustan minnir þægilega á Ítalíu.
Madonna hefur kosti í þessum hópi. Verð á venjulegum mat er lægra en annars staðar, 3900 krónur fyrir þriggja rétta kvöldmat með vali milli þriggja aðalrétta. Í hádeginu er súpa og réttur dagsins boðinn á tæpar 1200 krónur. Pöstur kosta 1600 krónur og pítsur 1500 krónur. Einnig hefur maturinn batnað frá því, sem áður var, fiskur var til dæmis ekki tekinn úr frysti og eldunartímar hafa stytzt.
Dæmigerður íslenzkur réttur var bragðgóð lambasteik, hæfilega rauð að innan og lítið byrjuð að verða seig, borin fram ofan á gulrótum og spergilkáli, undir stórflóði af áfengissósu með sveppum, sem flaut um allan disk, svo og bakaðri kartöflu. Slík fylgdi einnig pönnusteiktri ýsu, sem hvorki var ofelduð né krydduð, borinni fram með miklu af jöklasalati, afar íslenzkum rétti.
Spergilsúpa dagsins var vel krydduð hveitisúpa að íslenzkum hætti með miklum spergli, borin fram með volgu fransbrauði. Humarsúpa dagsins var tómatblönduð súpa með þeyttum rjóma og miklu af humri, sem hafði verið of lengi í súpunni og var orðinn seigur. Það eyðilagði annars bragðgóða súpu. Súkkulaðifrauð reyndist vera einfaldur búðingur með þeyttum rjóma að íslenzkum hætti.
Allt er þetta eins gamalíslenzkt og það getur verið, laust við að vera ítalskt, því miður ekki einsdæmi. Sennilega hafa ítölsku húsin í Reykjavík fundið leiðina að íslenzkum hjörtum um gamalkunna íslenzka matreiðslu, þrönga bása með bröttum sætisbökum og glerplötur í fangi gesta, kertaljós og daufa birtu, svo og heilan gám af flóamarkaðsdóti í bland við gerviblómahaf.
Jónas Kristjánsson
DV