Sjanghæ

Veitingar

*
Kínverskur megrunarkúr

Sjanghæ við Laugaveginn er sennilega eina Kínahúsið í heiminum, sem býður holl hýðishrísgrjón í stað mjallhvítra Beri-Beri hrísgrjóna. Aðeins í South Beach megrunarseðli Magnúsar á 1.900 krónur á mann er boðið kolvetnissnautt, ósykrað og canola-fitað töfrafæði að hætti eigandans fyrir offitusjúklinga. Þjónustan faldi hins vegar megrunarseðilinn, svo að ég gat ekki prófað hann.

Sjanghæ býður hlaðborð í hádeginu fyrir 980 krónur, betra en hlaðborðið í Asíu neðar við götuna, en samt ekki lystugt. Til dæmis voru djúpsteiktar rækjur vondar, en ekki eins vondar og í Asíu. Mér fannst hakk með baunabelgjum í lagi, svo og sneidd egg, tómatar og gúrka, en annað lítils virði. Á kvöldin er boðinn fastur seðill þekktra rétta á 1900 krónur. Annars kostar þríréttað 3800 krónur.

Fiskur er hvergi á seðli, en finna mátti hann djúpsteiktan og bragðlausan freðfisk í fjölbreyttu, en lítt spennandi jólahlaðborði. Þar mátti sjá ágætar rækjur í núðlum og kryddleginn nautavöðva, en annað var fremur lítils virði, svo sem harðar og daufar kjötbollur og vorrúllur. Humarsúpuna fann ég ekki, né heldur hörpuskelfiskinn og drekarækjuna. Menn eiga að standa við loforð í matseðli.

Ég mundi heldur prófa fastaseðilinn, þar sem er sjávarréttasúpa, súrsætar rækjur, steiktar núðlur, sikkúan-kjúklingur og nautstrimlar í Pekingsósu. En ég sá þann seðil of seint til að prófa hann. Út frá öðrum réttum sé ég fyrir mér, að hann sé skammlaus, ef þú þarft að nærast, en ekki til að fara út að borða við tækifæri.

Að mörgu leyti var staðurinn frambærilegur. Skilrúm hafa verið rifin, en vandaður húsbúnaður er hinn sami og áður. Þjónusta er breytileg eftir persónum. Ein stúlkan reyndi að láta mig borga 500 krónur fyrir bjór. Það er í fyrsta skipti í meira en áratug, sem reikningur minn hefur verið rangur í veitingahúsi á Íslandi. Sorrí, sagði hún. Þetta þekkist því miður sums staðar erlendis, alltaf gestinum í óhag.

Stóri gallinn við Sjanghæ er samt hinn sami og við önnur svokölluð kínversk veitingahús hér á landi, nema Kínahúsið í Lækjargötu: Eldhúsið er án metnaðar í faginu, sennilega frá upphafi bælt af vondum smekk viðskiptavina.

Jónas Kristjánsson

DV