*
Óhreint hjá Grýlu
Hreinlæti er ábótavant á Hard Rock rokkminjasafni Kringlunnar. Sex mánaða ryk og skítur er á láréttum flötum og sex ára ryk og skítur á láréttum rimlum í gluggatjöldum. Auk þess matreiðir Grýla stundum í eldhúsinu. Þetta er ekki staður til að borða á, þótt góð móttaka og þjónusta sé sem fyrr tromp staðarins.
Sem dæmi um matreiðslu Grýlu var hnausþykk hveitisúpa með skán, snarpheit með blaðlauksbragði, borin fram með hálfsoðnu fransbrauði brúnu. Annað dæmi var bragðlaust matarlímshlaup, sem gekk undir nafni kalkúns, borið fram með hvítum kartöflum og léttsteiktu grænmeti, svo og mildri sósu af eggjaætt.
Alvörukokkur leysti hins vegar Grýlu af hólmi í grilluðum eldislaxi, eina fiski staðarins. Hann var nákvæmlega rétt eldaður, fínn matur, laus við þurrkinn og seigjuna, sem fylgja ofelduðum laxi. Grýla komst hins vegar í bökuðu kartöfluna, sem var örugglega að minnsta kosti tvíbökuð. Auk þess var mikið jöklasalat á diskinum.
Skynsamlegast er að fá sér fajitas með nautakjöti, því að þá kemur hráefnið á borðið og þú færð að elda sjálfur. Tortillurnar koma í einangruðu boxi, kjötið snarkandi á pönnu og meðlætið á diski. Þú blandar þessu saman eftir þínum stíl. Eftirréttir eru líka frambærilegir, svipaðir og þeir hafa alltaf verið.
Hard Rock hefur farið feiknarlega aftur síðan Tommi rak hann fyrir einum til tveimur áratugum. Þá var staðurinn óður til bandarískrar matreiðslu með kornstönglum, viðarkolum, hikkorí-reykingu, Tennessee-reykingu, ýmiss konar Tex Mex og jafnvel Cajun útfærslum. Þá var hann hálfgert matargerðarmusteri.
Fyrir áratug fór Tommi og Hard Rock fór að breytast til hins verra. Nú er hann orðinn skyndibitastaður, þar sem fólk borgar tvöfalt fyrir hamborgara út á sögufrægðina. Engu máli skiptir, þótt Grýla sé í eldhúsinu og sparað sé í hreinlæti. Staðurinn er yfirleitt þéttsetinn, kannski af fólki utan af landi.
Verðlagið er svipað og á ítölskum stöðum miðborgarinnar, 2500 krónur aðalréttur og 4600 krónur þríréttuð máltíð.
Jónas Kristjánsson
DV