Uppeldisbresturinn

Greinar

Ef nýr forsætisráðherra og aðrir máttarstólpar þjóðarinnar á síðustu árum vilja fá betur upp alin börn á Íslandi, er nærtækast fyrir þá að gefa foreldrum betri tíma. Ráðamenn hafa hins vegar rekið þjóðarbúskapinn á þann hátt, að barnafjölskyldur þurfa tvær fyrirvinnur til að lifa af.

Framleiðni á Íslandi er lítil, meðal annars vegna áherzlu stjórnvalda á gæludýrarekstri, til dæmis landbúnaði. Til þess að standa jafnfætis vestrænum þjóðum, verða Íslendingar að bæta sér þetta upp með löngum vinnudegi og tvöfaldri fyrirvinnu. Það leiðir víða til gallaðs uppeldis barna.

Ríkisstjórnin getur lagt sitt af mörkum með því að afnema félagslega velferð í atvinnulífinu og auka þannig framleiðni til dæmis upp í það, sem hún er í Frakklandi. Þá gæti hún stytt vikulegan vinnutíma niður í 35 tíma og gert fleiri foreldrum kleift að sinna börnum sínum betur en hingað til.

Meðan við bíðum eftir, að ríkisstjórnin breyti áherzlum í atvinnumálum, getum við notað tækifærið til að hvetja máttarstólpa, svo sem stjórnmálaflokka og þjóðkirkju, til að taka afstöðu gegn dýrkun ofbeldis og kynóra, sem flæðir yfir unga fólkið í sjónvarpsefni, bíómyndum og tölvuleikjum.

Uppspretta þessa ógeðs er að mestu í Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld eru að ala upp fallbyssufóður. Það er spurning, hvort þjóðkirkjan og stjórnmálaflokkar vilja skera að frönskum hætti upp herör gegn illum uppeldisáhrifum, sem berast hingað í skjóli bandarísks ofurafls í lágmenningu.

Einnig er nauðsynlegt, að stjórnvöld beini augum sínum að börnum og unglingum, sem þegar hefur verið spillt af ofangreindum ástæðum. Margir unglingar fara fram af fullkomnu tillitsleysi við umhverfið, af því að þeir komast upp með það, lögin gera ekki ráð fyrir sakhæfum unglingum.

Bretar eiga við þyngri vanda að etja á þessu sviði. Þar í landi ganga um flokkar bjórdrukkinna unglinga, sem eru haldnir skemmdarfýsn. Bretar eru farnir að sekta foreldra þessara unglinga um 30-40 pund eða 4000-5500 krónur fyrir hvert athæfi unglinga og barna allt niður í tíu ára aldur.

Síbrotafólk meðal foreldra, sem ekki hefur skikk á börnum sínum þrátt fyrir sektir, eru Bretar farnir að senda á námskeið í uppeldi. Ekki er enn vitað, hvort slíkt hefur áhrif, en sendir öllu falli þau skilaboð út í þjóðfélagið, að gerð sé krafa um, að foreldrar beri ábyrgð á uppeldinu.

Við getum ekki horfið aftur í tímann til ástands, sem við ímyndum okkur að hafi verið í gamla daga. En stjórnvöld, máttarstólpar og foreldrar geta samt andæft siðleysinu.

Jónas Kristjánsson

DV