200 megrunarkúrar

Greinar

Ef einn einasti megrunarkúr virkaði, væru ekki til sölu 200 mismunandi megrunarbækur í bandarískum bókabúðum, heldur bara ein. Þar sem engin bókin virkar, eru bækurnar 200. Þessi sannindi hafa nú verið staðfest af rannsókn, sem sýnir, að engar rannsóknir staðfesta neina megrunaraðferð.

Í nokkrar aldir hefur það verið eðli nútímans, að allt er rannsakað og borið saman. Einn hópur er borinn saman við annan, sem er eins að öðru leyti en því, að hann fær ekki lyfið eða matinn eða hvað annað, sem verið er að rannsaka. Þannig er reynt að sjá, hvort fullyrðingar standast skoðun.

Fljótsagt er, að þeir, sem selja okkur leiðir til megrunar, bækur eða duft eða annað, forðast eins og heitan eldinn að fá staðhæfingar sínar sannreyndar. Þær skyggja nefnilega á drauminn, sem reynt er að selja. Það sýnir rannsókn, sem um daginn var birt í tímaritinu Annals of Internal Medicine.

Greinarhöfundar fundu 108 rannsóknir á þessu sviði, þar af tíu, sem voru gerðar á sómasamlegan hátt. Aðeins ein þeirra sýndi smávægilegan árangur í skamman tíma. Weight Watchers aðferðin gaf 5% megrun á sex mánuðum, en mest af þyngdinni kom til baka á einu ári eða tveimur. Heildarútkoman var 0.

Til samanburðar má nefna, að aðferðir AA til að halda fólki frá áfengi voru staðfestar í umfangsmikilli rannsókn Vaillant við Yale-háskóla, sem stóð nokkra áratugi. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð á hliðstæðri aðferð við megrun, svokallaðri Overeaters Anonymus. Hún er enn óvís.

Vísindamenn og embættismenn sem stóðu að rannsókninni á stöðu megrunarkúra í vísindum, segja, að furðulegt sé, að nánast enginn megrunarkúrastjóri sækist eftir vísindalegum aðferðum við að staðfesta orð þeirra eða hafna þeim. Þeir segja, að þetta sé eins og að setja ókannað lyf á markað.

Þetta segir okkur, að lítið mark er takandi á Herbalife og öðru dufti, South Beach eða Atkins eða öðrum bókum. Öll þessi vara selzt, af því að fólk dreymir um að léttast, verða grönn eins og fyrirmyndir í sjónvarpi og bíómyndum. Sumir eru í ævilangri þyngdarsveiflu í nýjum og nýjum kúrum.

Niðurstaða málsins er, að aðferðirnar séu að berjast við náttúrulögmál. Á einu ári endurheimti fólk þriðjung hinna brottfallinna kílóa og á tveimur árum tvo þriðju. Eftir fimm ár er fólk aftur komið í upphafsstöðu. Þetta eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir þá, sem berjast um í voninni.

Þar sem mikið heilsutjón er af völdum of mikillar þyngdar, er orðið tímabært, að heilbrigðisyfirvöld á Vesturlöndum taki saman höndum um að finna staðfesta leið til megrunar.

Jónas Kristjánsson

DV