100.000 manns

Greinar

Talan 100.000 manns um mannfall óbreyttra í Írak er fengin frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health læknaskólanum í Baltimore. Rannsóknin var birt í Lancet, einu þekktasta læknatímariti heims, þar sem greinar eru ekki birtar fyrr en eftir gaumgæfilega skoðun tilkvaddra dómara.

Ekki var hægt að telja hina látnu, af því að hernámslið Bandaríkjanna í Írak telur ekki sjálft: “We dont do body counts”, sagði Tommy Franks herstjóri. Ennfremur leggur það sig fram um að hindra aðra í að telja. Einkum hefur hefur verið reynt að hindra lækna á bráðadeildum í að koma upplýsingum á framfæri, jafnvel með því að drepa þá.

Þegar Bandaríkjaher réðist inn í Falluja, voru bráðadeildir sjúkrahúsanna fyrstu skotmörkin. Ráðizt var strax á þau, læknar drepnir og gemsar teknir af öðrum. Eftir fyrsta dag árásarinnar var enginn bráðalæknir eftir í borginni. Einnig var ráðizt á blaðamenn, sem reyndu að lýsa ástandinu.

Í erfiðri stöðu fóru vísindamenn Johns Hopkins skólans sömu leið og almennt er farin í læknavísindum. Þeir fundu hverfi víða um Írak, töluðu við íbúana og mátu, hversu margir hefðu verið drepnir í fjölskyldum þeirra. Með því að framlengja tölurnar fyrir allt landið, mátu þeir heildarstöðuna.

Það varpar engum skugga á þessa viðurkenndu og árangursríku aðferð læknavísindanna, að íslenzkir þrætubókarmenn á borð við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vefengi hana. Almennt er viðurkennt um allan heim, nema í sóðakreðsum Davíðs & Halldórs, að 100.000 óbreyttir borgarar hafi verið myrtir.

Almennt er viðurkennt um heim allan, að Bandaríkjaher hafi farið fram með miklu offorsi og brotum á alþjóðalögum gegn óbreyttum borgurum í Írak, meðal annars jafnað Falljua við jörðu, ekki til þess að ná skæruliðum, sem voru nærri allir farnir, heldur til að reyna að segja öðrum Írökum, að svona geti farið fyrir þeim, ef þeir hagi sér ekki almennilega.

Allt hefur þetta haft þveröfug áhrif. Bandaríkin komu að ríki, sem átti engin mikilvæg vopn og var engin ógnun við önnur ríki og þar sem friður ríkti yfirleitt á götum úti. Það eru Bandaríkin, sem hafa breytt gömlu menningarríki í sláturhús til að þóknast róttækum trúarofstækismönnum.

Um allan heim er fullt af ógeðfelldum harðstjórum, sem flestir stjórna í skjóli Bandaríkjanna. Þau komu raunar Saddam Hussein á fót fyrir nokkrum áratugum og létu hann þá hafa efnavopn til að myrða nágranna sína í Íran. Öll samskipti Bandaríkjanna við þetta hrjáða land eru hluti af vitfirringu heimsveldis, sem þekkir sér engin takmörk.

Í einkasamsæri Davíðs & Halldórs voru Íslendingar gerðir að siðferðilegum ábyrgðaraðila þessa viðurstyggilega stríðs, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa verið myrtir.

Jónas Kristjánsson

DV