Perlan hrífur ekki

Veitingar

Perlan

***

Perlan er ekki alveg í klassa með Holti og Vox og sýnu lakari en Grillið og Humarhúsið, enda er hér seld byggingarlist og hringrás fremur en matur og þjónusta. Í verði er Perlan samt á svipuðu róli og aðrir klassískir fínistaðir borgarinnar, 6700 krónur þríréttað.

Þjónustan var sæmileg, en í nokkrum atriðum undir lakari aga en í öðrum húsum af þessu tagi. Á borðið kom matur ætlaður öðru borði, tvisvar var reynt að taka við pöntun á eftirrétti, okkur var ekki hjálpað í yfirhafnir. Margt smátt gefur þann svip, að hér megi taka til hendinni.

Matur var einnig góður, en í nokkrum atriðum ekki eins vandaður og í öðrum húsum af þessu tagi og þjónustan á köflum ekki eins fær um að útskýra matargerðarlistina. Ég hafði á tilfinningunni, að listin væri ekki í forgangi hér og væri þar að auki í fráhvarfi frá nútímanum.

Carême hefði hugsanlega fyrir frönsku byltinguna haft beikonbragð af kartöflum með skötusel, en mér er ekki ljós tilgangurinn með slíku í fiskrétti í nútímanum. Beikon er fyrst og fremst róttæk aðferð við að leyna fiskbragði, enda tókst það alveg í þessu tilviki.

Ég skildi heldur ekki rosalegan haug af annars mildu og bragðgóðu kúskús undir sandhverfu, sem var sjálf fínlega elduð og frambærileg. Mér fannst líka vafasamt að hafa mikið hlaup af matarlími á mörkum andalifrar og reykilax í mótuðum og niðursneiddum rétti, sem kallaður var mósaík.

Loks náði ég ekki, hver var fídusinn í að setja Bounty súkkulaði í karamellufrauð, af hverju ekki meira kakó og minni sykur. Var verið að auglýsa hversdagslegt vörumerki í matseðli, sem þykist vera fínni en gengur og gerist?

Margt var gott við Perluna, humarsúpan var mild og fín með hæfilega vægum keim af Madeira. Kryddlegin tígrisrækja var fín, sömuleiðis kryddjurtasalat með reyktum sætukartöflum, sem fylgdi henni.

Matseðillinn var stuttur, aðeins fjórir forréttir, þrír fiskréttir, þrír kjötréttir og þrír eftirréttir. Ekki var hann spennandi lesning. Þetta var eins og gamalt og gróið ervrópskt miðbæjarhótel, sem býður það allra nauðsynlegasta.

Jónas Kristjánsson

DV