Halldór Ásgrímsson hefði getað sagt fyrir löngu: “Það var logið að okkur um Írak, þar voru engin gereyðingarvopn og þar voru engar hryðjuverkasveitir til árása á Vesturlönd.” Þetta hafa efnislega sagt ýmsir þjóðarleiðtogar, sem hafa dregið til baka stuðning við stríð Bandaríkjanna við Írak.
Stjórn Bandaríkjanna laug nefnilega að Halldóri eins og öðrum. En viðbrögð hans voru ekki rökrétt, af því að hann var kominn svo langt til hægri, að hann vildi ekki trúa því, sem allur heimurinn vissi. Hann hefur fylgt George W. Bush úr einu lygavörninni í aðra, þegar fyrri lygar urðu séðar.
Hann hefði getað sparað sér, það sem hann og dólgar hans kalla ofsóknir og einelti, með því að viðurkenna það, sem leiðtogar Frakklands og Þýzkalands sáu fyrirfram. Þá hefði hann losað þjóðina undan þeirri þjáningu að þurfa að auglýsa í New York Times, að hún sé meira en 80% andvíg stefnu hans.
Allt annað en þetta er eftirleikur. Halldór hefur hamast við að lýsa því yfir, sem sumir aðrir ráðherrar muna ekki eftir, að Írak hafi verið rætt í ríkisstjórn, svona til að koma sér undan því að svara, hvort árásin hafi verið samþykkt. Sama gildir um utanríkismálanefnd, almennt spjall um Íraksmál.
Halldór ber með Davíð Oddssyni ábyrgð á, að Ísland var og er talið fylgja upplognum forsendum fyrir stríði og fólskulegu stríði, þar sem saman fara fjöldamorð og stríðsglæpir, allt í nafni þeirra félaga, sem hafa skorið sig frá þeirri hefð Íslendinga að vera á móti stríði, jafnvel gegn Hitler.
Þetta mál er hluti af þróun, þar sem Framsóknarflokkur Halldórs og dólga hans er kominn á hægri jaðarinn með ofsóknum á náttúru og vistkerfi Íslands, ofsóknum á gamalt fólk og öryrkja, sölu á innviðum þjóðfélagsins á borð við ljósleiðarann. Framsókn Halldórs breytist í fasistaflokk.
Einu sinni þóttist Framsókn vera miðflokkur og flestir þeir, sem eftir eru af kjósendum hans, telja sig vera þar. Hvað Halldór er að sækja yzt á hægri kantinn, er öllum nema honum og dólgum hans fyrirmunað að sjá. Ólíklegt er, að hann vinni þar meira fylgi en hann hefur kastað frá sér á miðjunni.
Enn eru þjóðarleiðtogar seint og um síðir að viðurkenna, að logið hafi verið að þeim um Írak. Nú eru Hollendingar að fara frá Írak, svo og Úkraínumenn og Pólverjar. Ekki er of seint fyrir Framsókn að sigla aftur inn á miðjuna og taka upp stefnu, sem meira en 80% þjóðarinnar fylgja réttilega.
Halldór segir, að það sé mál hans og Davíðs, hvort Ísland samþykki stríð við ríki, sem hafa ekki gert okkur neitt. Það er hornsteinn fasisma hans, sem hann verður að falla frá.
Jónas Kristjánsson
DV