Ísland örum skorið

Greinar

Fólk er rétt að byrja að skilja, að Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja eru að virkja jarðvarma til stóriðju á Grundartanga á sama tíma og Landsvirkjun er að virkja vatnsafl við Kárahnjúka til stóriðju á Reyðarfirði. Gufan verður tilbúin til sölu á næsta ári, á undan Kárahnjúkum.

Fólk er rétt að byrja að skilja, að ónotað og virkjanlegt gufuafl til stóriðju er jafn mikið og ónotað og virkjanlegt. vatnsafl. Þetta er staðreynd, sem lengi hefur verið ljós, en var til skamms tíma lítið rædd, af því að yfirvöld orkumála í Landsvirkjun og Iðnaðarráðuneyti einblíndu á vatnsaflið.

Fólk er rétt að byrja að skilja, að gufan er umhverfisvænni. Fjölmargar jarðvarmavirkjanir eru í hæsta gæðaflokki frá umhverfissjónarmiði, en einungis tvær vatnsaflsvirkjanir, Hólmsárvirkjun og Núpsvirkjun. Hægt verður að virkja framvegis til stóriðju án þess að stofna til ófriðar.

Ísland örum skorið er nafn á bæklingi, sem hefur farið víða, þrátt fyrir tilraunir til að hefta útbreiðslu hans. Þar kemur fram, að mögulegar jarðvarmavirkjanir jafngilda fjórum Kárahnjúkavirkjunum að orkugetu, án þess að þær eyðileggi stærsta ósnortna víðerni Evrópu á óafturkræfan hátt.

Nú hljóta margir að spyrja, hvers vegna Kárahnjúkavirkjun var keyrð ofan í kok á þjóðinni, þrátt fyrir mikla og harðskeytta andstöðu. Menn spyrja, hvers vegna Landsvirkjun fór ekki leið Orkuveitu Reykjavíkur, sem undirbjó og réðst í gufuaflið á sama tíma og með meiri hraða en Landsvirkjun.

Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun eru eins og svart og hvítt. Sú fyrri setur stór landsvæði á annan endann, svo að aldrei verður aftur tekið. Fyrir hinni síðari fer mjög lítið, auk þess sem unnt er að færa náttúruna aftur til fyrra horfs, ef orkuvinnslu lýkur vegna nýrra orkugjafa.

Af hverju var valtað yfir umhverfissinna við Kárahnjúka að ástæðulausu? Af hverju gekk Landsvirkjun berserksgang í að knýja fram stórfellda eyðileggingu á stærsta ósnortna víðerni í Evrópu? Af hverju nauðgaði Landsvirkjun okkur, þegar önnur og vistvænni tækni var komin hjá Reykjavík?

Fjöldi manna hefur ekki fyrirgefið Landsvirkjun, né þeim stjórnmálaðöflun, sem kúguðu þjóðina að ástæðulausu. Þar standa ærulausir leiðtogar, sem voru svo fullir hroka, að þeir vildu engar sættir, vildu knýja fram eyðileggingu, að því er virðist einkum til að sýna mátt sinn og megin.

Bæklingurinn Ísland örum skorið sýnir staðreyndir. Annars vegar eru fortíðaröfl ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar, hins vegar eru framtíðaröfl Reykjavíkur og Orkuveitunnar.

Jónas Kristjánsson

DV