Fínn formúlustaður

Veitingar

****

Argentína er fínn formúlustaður, leggur áherzlu á sárafá atriði, sem skipta mestu máli, og gerir þau vel. Fyrst og fremst eru eldunartímar hárnákvæmir, sem er eitt hið mikilvægasta í allri eldamennsku, en gleymist oft í dúlli fína og franska eldhússins fram eftir öllum degi.

Argentína eldar ekki bara nautakjöt passlega, heldur líka bakaðar kartöflur og humar. Ég hef á tilfinningunni, að eldhúsið mundi skila frá sér fínum fiski, ef hann væri hér á boðstólum. Oft er skammt milli steikhúsa og fiskhúsa, því að hvor tveggja stofnunin byggir tilveru sína í kunnáttu í meðferð eldunartíma.

Nautakjötið er nokkuð gott, þótt stundum hafi það verið betra fyrrum. Mér fannst steikin að þessu sinni í megursta lagi, skorta sumt af innri fitunni, sem er aðalsmerki góðrar steikur. Þótt hún væri meyr, var ekki hægt að skera hana með skeið.

Hvítlauksgrillaðir humarhalar voru nákvæmlega hæfilega stutt eldaðir, bornir fram á spjóti með hálfþurrkuðum tómötum. Sama var að segja um humar og risarækju á tveimur spjótum, sem lágu í kross ofan á salati.

Allt meðlæti var staðlað, bökuð kartafla, tvær sósur með kjöti og fallegt blaðsalat. Það eina, sem ég prófaði utan staðlaða kerfisins voru grillaðir og afar heitir sveppir japanskir með gráðosti, parmaskinku og beikoni, svo og miklu magni af klettasalati, gamaldags réttur.

Eftirréttir voru kerfislægir og betri en á mörgum klassísku stöðunum, karamelluhúðaður sítrónugrasbúðingur créme brulèe og kanilkryddaður panna cotta búðingur með rabarbara. Espresso kaffi vantaði beizka tóninn, var ekki ekta ítalskt.

Þjónusta var fín, glasavín góð, hvítt lín og munnþurrkur á borðum. Þótt húsakynni séu ruddaleg að hætti steikhúsa, er þetta með beztu matstöðum borgarinnar. Argentína er ótvírætt langbezta steikhús landsins, alþjóðlega frambærilegur staður, sem hefur frá upphafi höfðað til þjóðarinnar.

Þríréttað kostar að meðaltali 6200 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV