Peðin í stríðinu

Greinar

Við lifum á spennandi tíma, að ýmsu leyti viðsjárverðari en kalda stríðið var. Framtíð Íslands og Íslendinga ræðst sem peðs af atburðum og framvindu úti í heimi. Við lifum á viðskiptum við útlönd og sætum sveiflum, sem hafa áhrif á afkomu okkar og velferð, jafnvel varanlegum sviptingum.

Fyrsti áratugur nýrrar aldar einkennist af misheppnaðri tilraun Bandaríkjanna til heimsyfirráða. Hún hefur bein og óbein áhrif á ótal sviðum, allt frá heimsviðskiptum yfir í loftslag jarðar og mun því stýra afkomu okkar og velferð fram eftir næsta áratug. Okkur koma heimsyfirráðin við.

Undanfarin ár hefur Evrópa, undir forustu Frakklands og Þýzkalands, haldið uppi vörnum gegn einræði Bandaríkjanna. Þess vegna fór Evrópa ekki í stríð við Írak og neitar að fara í stríð við Íran. Evrópa lærði í heimsstyrjöldum 20.aldar þá lexíu, sem Bandaríkin lærðu ekki í Víetnam.

Evrópa hefur náð nánast öllum ríkjum heims undir hatta Kyoto-bókunar um aðgerðir gegn koltvísýringi og Alþjóða glæpadómstólsins í Haag, hvort tveggja gegn eindreginni andstöðu Bandaríkjanna, sem nú orðið telja alla samninga milli ríkja hefta svigrúm sitt sem heimsveldisins eina.

Kína og síðan Indland eru að koma til skjalanna sem fjölmennustu ríki heims með óhemjulegan hagvöxt. Kína á nú þegar svo mikið af dollurum, að hún getur rústað efnahag Bandaríkjanna með því að selja. Þessi tvö ríki munu á sinn hátt taka þátt í andstöðunni gegn heimsveldinu eina.

Bandaríkin geta ekki einu sinni tryggt leppum sínum í Írak, svo sem Ajad Allawi og Abd al-Madi, völd í landinu eftir þingkosningar. Þar munu taka við menn, sem hlýða skipunum sjítaklerka, sem taka velferð fram yfir markaðshyggju og vingast við Íran, sem Bandaríkin hatast núna mest við.

Úr því að Bandaríkin réðu ekki við Írak, munu þau ekki ráða við Evrópu og enn síður við Evrópu, Kína og Indland. Nú þegar er Evrópusambandið farið að stýra viðskiptaumhverfi heimsins með reglugerðum, sem allur heimurinn fer eftir til að komast inn á langstærsta markað heimsins í Evrópu.

Ferðir Condoleezza Rice og George W. Bush til Evrópu breyttu engu. Utanríkisráðherrann sagði bla-bla-bla og evrópskir viðmælendur hennar sögðu bla-bla-bla á móti. Allir þóttust vera hinir samvinnuþýðustu. En Bandaríkin linna ekki kröfu sinni um heimsyfirráð og Evrópa linnir ekki andstöðunni.

Verst fyrir okkur við þessa spennu er, að Bandaríkin neita enn að taka þátt í aðgerðum heimsins til að tryggja mannkyni framtíð með því að vinda ofan af vaxandi umhverfismengun.

Jónas Kristjánsson

DV