Framsókn afhjúpuð

Greinar

Framsókn getur ekki staðsett sig í stjórnmálum með plöggum og yfirlýsingum á flokksþingi. Staða flokka mælist af gerðum þeirra, en ekki meintum vilja þeirra til góðra verka. Og Framsókn hefur í langri stjórnarsetu gefið okkur greinargóða skýrslu um, hvar flokkurinn er staddur í tilverunni.

Undir forustu Halldórs Ásgrímssonar hefur flokkurinn færzt úr miðju íslenzkra stjórnmála út á hægri kantinn. Hann hefur í ríkisstjórn verið flokkur fasískra sjónarmiða, sem meðal annars hafa lýst sér í verki í andstöðu Árna Magnússonar við sjónarmið stéttarfélaga í deilum á Kárahnjúkasvæðinu.

Í orkumálim hefur Framsókn stimplað sig inn hjá kjósendum sem svartur flokkur. Ekki lengur grænn flokkur bænda og landsbyggðar, heldur svartur flokkur óheftrar auðhyggju og græðgi, þjónkunar við fjölþjóðafyrirtæki gegn grænni verndun landsins og óbyggða þess. Framsókn er á móti landvættunum.

Forsíða Framsóknarflokksins á þessu sviði er ekki bara þreytusvipur formannsins, heldur andlit Valgerðar Sverrisdóttur, sem er einn helzti andstæðingur náttúru landsins og vill greinilega virkja fallvötn um allt land, meðal annars í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti.

Með ýmsum hætti hefur Framsókn stuðlað að auknu bili milli ríkra og fátækra í landinu. Hún hefur í krafti stöðu sinnar í ráðuneytum Árna og Jóns Kristjánssonar skafið af fyrri velferðarstefnu, til dæmis í aukinni kostnaðarhlutdeild sjúklinga við lyf og meðferð og í skertri félagsþjónustu.

Framsókn hefur tekið trú á bandarískan dólgakapítalisma, sem telur, að hlúa þurfi að stórfyrirtækjum og stóreignamönnum til að auður þeirra sáldrist niður þjóðfélagsstigann. Ekkert bendir til, að þessi kenning sé rétt, en hún ræður ríkjum hjá stjórnmálaflokki, sem er nýgræðingur í auðhyggjunni.

Þekktust er Framsókn fyrir að hafa vikið frá stefnu hlutleysis, sem áður var svo hrein, að Ísland neitaði að segja sjálfum Adolf Hitler stríð á hendur. Nú er Ísland sjálfvirkur púðluhundur í dýragarði George W. Bush og vill komast í Öryggisráðið til að að þjóna leiðtoganum betur.

Allt þetta andstyggilega við Framsókn bliknar í samanburði við stöðu hennar sem hornsteins spillingar í þjóðfélaginu. Framsókn hefur áratugum saman einkum verið hagsmunabandalag einstaklinga, sem vilja koma sér og sínum áfram í lífinu. Framsókn er flokkurinn, sem fann upp sjálf helmingaskiptin.

Allt sem Framsókn hefur illt gert fátækum og náttúrunni eru smámunir í samanburði við stöðu flokksins sem hornsteins pólitískrar spillingar og eigingirni í þessu landi.

Jónas Kristjánsson

DV