Þeir fyrirlíta þig

Greinar

Þeir fyrirlíta þig. Þeir vita, að þú verður búinn að gleyma þessu eftir ár, löngu fyrir kosningar. Halldór Ásgrímsson og spunakerlingarnar telja Framsókn eiga embætti fréttastjóra útvarps og beri engin skylda til að finna hæfan flokksmann í það. Lakasti frambjóðandinn sé alveg nógu góður í starfið.

Þeir fyrirlíta þig af því að þeir hafa reynslu fyrir því, að þú gleymir öllu þeirra spillta framferði. Þeir vita, að þú ert þegar búinn að gleyma því, að Björn Bjarnason skipaði lakasta frambjóðandann sem hæstaréttardómara. Hvorki Björn né Sjálfstæðisflokkur hans líða neitt fyrir þann gerning.

Ekkert þýðir fyrir þig að væla út af linnulausri misnotkun siðspilltra á því stjórnvaldi, sem þeir fara með, af því að þú greiddir þeim atkvæði á sínum tíma. Fréttir undanfarinna áratuga er endalaus saga spillingar, þar sem fram úr skara aðgerðir flokka ríkisstjórnarinnar í þágu gæludýra sinna.

Hornsteinn þessa kerfis eru helmingaskiptin, sem Framsókn fann upp og snýst um. Raunar er Framsókn ekki lengur neinn stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi, heldur eins konar vinnumiðlun fyrir félagsmenn og þá, sem hún vill gera að félagsmönnum sínum, fyrirgreiðslustofnun fyrir kvígildi.

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur alltaf verið þægt verkfæri í höndum ríkisstjórnarinnar, sem farið hefur með völd í landinu miklu lengur en minni þitt rekur. Hann gerir bara það, sem meirihluti útvarpsráðs segir honum að gera. Hann hefur alls ekkert stolt fyrir hönd Ríkisútvarpsins.

Rekstrarsaga útvarpsstjóra er hin sorglegasta. Á valdaskeiði hans hefur verið hrúgað upp fjölmennu kerfi yfirmanna á vegum Sjálfstæðisflokksins. Taprekstur Ríkisútvarpsins byggist annars vegar á þessum fjölda óþarfra kvígilda og á dýrum mistökum þessara kvígilda dag eftir dag, ár eftir ár.

Þessi ríkisstjórn er svo sannfærð um takmarkalaust vald sitt, að hún nennir ekki lengur að finna sæmilega hæf gæludýr til samanburðar við fagfólk, sem er í boði. Hana munar ekkert um að sparka í þig, af því að hún veit, að þú ert aumingi, sem munt skila þér í réttan dilk í kosningum.

Gamla sagan endurtekur sig enn einu sinni. Reiðibylgja fer um þjóðfélagið. Starfsmenn Ríkisútvarpsins eru siðferðilega niðurbrotnir. Stjórnarandstaðan hamast á Alþingi. Þetta skiptir valdhafana engu máli, af því að þeir þekkja þig, sem valdið veitir, hinn almenna kjósenda, sem öllu gleymir.

Halldór Ásgrímsson fyrirlítur þig, enda áttu það skilið. Davíð Oddsson fyrirlítur þig, enda áttu það skilið. Björn Bjarnason fyrirlítur þig, enda áttu það skilið.

Jónas Kristjánsson

DV