Alþýðlegir og ágætir

Veitingar

Hamborgarabúllan, TexMex og Menam

Hamborgarbúllan

Hamborgarabúlla Tomma er dæmi um ódýran skyndibitastað, sem er svo góður, að hann telst gjaldgengur sem hefðbundinn matsölustaður. Honum er skemmtilega komið fyrir í frægum og endurnýjuðum torgturni við Slippfélagið.

Þar er mikið að gera við að afgreiða safaríka hamborgara með salati og bufftómatsneið, enda er Tommi enginn byrjandi í bransanum. Við erum spurð, hvernig við viljum láta steikja borgarann. Þarna var líka hægt að fá fína steik grillaða, þótt hún sé ekki á matseðli. Cappucino kaffi var fínt, betra en á þorra matsölustaða.

TexMex

TexMex við Laugarnesveg er pínulítill og notalegur staður, þar sem fólk kemur til að sækja sér mat eða sezt niður til að borða á staðnum. Þetta er ódýr og fjölskylduvænn staður, þar sem aðalréttir kosta 1050-1450 krónur og þríréttað kostar 2700 krónur.

Þarna er dæmigerð TexMex matreiðsla á mexíkönskum flatkökum með fyllingu, quasedillas, burritos, tacos, enchiladas, fahitas og chimichangas, allt í stórum skömmtum. Einnig er hægt að fá lambasteik og ýmsa smárétti, svo sem nachos, buffalo wings og mexican skins eins og í Texas, þar sem þessi stíll varð til.

TexMex er að flytja í Listhús við Suðurlandsbraut norðanverða.

Menam

Menam að baki hótelsins á Selfossi er einn af kannski tveimur stöðum utan Reykjavíkur og Akureyrar, þar sem hægt er að fá frambærilegan mat. Hér er snætt við vönduð húsgögn undir austrænum skreytingum og myndum af konungshjónum Taílands.
Þetta er blanda af taílenzkum og alþjóðlegum stað með sérstökum heilsumatseðli, þar sem er nær engin fita, takmarkað salt og sykur og náttúruleg krydd leysa tilbúin krydd af hólmi.

Þarna kosta seríur af taílenzkum réttum 1700-1900 krónur. Á 1800 króna svokölluðum B-seðli var sterkt lambakjöt í karrí, svínakjöt með kasjú-hnetum, djúpsteiktar rækjur og milt pönnusteikt grænmeti með hrísgrjónum. Þetta var mun betur matreitt en á hefðbundnum Asíustöðum í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV